143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[14:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og öðrum hv. þingmönnum þátttöku í umræðunni sem hefur verið ágæt. Við þurfum að svara því hver við viljum að þróun greinarinnar verði. Besti tíminn til að gera breytingar á rekstrarumhverfinu er þegar greinin er í örum vexti eins og nú er. Núna er rétti tíminn til að gera breytingar.

Það er vissulega ástæða til að hafa þungar áhyggjur af því hve litlu fjármagni er varið í ár til að efla innviði á ferðamannastöðum. Ef ekki verður gripið strax þar í taumana er líklegt að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist, ferðamönnum fækki og fjárfestingar í greininni beri sig ekki með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa varað við gullgrafaraástandi sem nú virðist vera að skapast í greininni og telja einnig eðlilegt að virðisaukaskattur verði lagður á öll fyrirtæki í ferðaþjónustu og þannig njóti samfélagið í heild aukinna tekna af stórauknum straumi ferðamanna.

Gjaldtaka í anda þess sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur boðað er mjög umdeild. Samband íslenskra sveitarfélaga er meðal þeirra sem sett hafa fram áleitnar spurningar um hana og benda á að almenn skattheimta sé einfaldari og tryggari leið til tekjuöflunar en upptaka nýrrar gjaldtöku í formi náttúrupassa.

Ég spyr hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem talað hefur fyrir einfaldara skattkerfi hvort honum finnist ný og flókin gjaldtaka vera í þeim anda. Af hverju má ekki nýta virðisaukaskattskerfið og láta neysluskatta sem erlendir ferðamenn greiða að mestu ganga til uppbyggingar innviða þannig að atvinnugreinin eigi möguleika á því að dafna um ókomin ár?

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra í umræðunni áðan að umhverfi ferðaþjónustunnar verði undir í boðaðri endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. Er þá ekki rétt að bíða þeirra breytinga frekar en að flækja skattkerfið í millitíðinni og styrkja innviðina með öðrum tekjum á meðan?