143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún hefur verið áhugaverð og farið yfir breitt svið. Ég vil byrja á að segja að það ber að varast að draga of miklar ályktanir af því svari sem barst frá fjármálaráðuneytinu til málshefjanda um tekjur af hverjum ferðamanni. Að baki þeim tölum eru engar nánari greiningar. Augljóst er til dæmis að ef meðalviðvera ferðamanna á Íslandi er að styttast til lengri tíma mun það leiða til lægri beinna skatta.

Þess vegna þarf að gera frekari greiningar á þessu. Aðrar rannsóknir sem hafa reynt að kafa dýpra í þetta benda til þess að tekjur á dag fyrir hvern ferðamann hafi gefið aðeins eftir. Við eigum að fara dýpra í þessar tölur og reyna að greina hvað er þar að baki. Það getur verið ýmislegt. En við verðum líka að taka óbeinu skattana með.

Eins og ég rakti áðan áætlar Boston Consulting Group að óbeinu skattarnir til viðbótar við þessa 17 milljarða í beinum sköttum séu um 10 milljarðar. Eftir því sem við tökum minna í beina skatta kann að vera að óbeinu skattarnir vaxi. Því ódýrari sem maturinn á veitingahúsunum er eða gistingin á hótelrýmunum, þeim mun meira er verslað í hönnunarverslunum á Íslandi eða farið á fleiri ferðamannastaði o.s.frv.

Það þarf nákvæmari greiningar til að taka djúpt í árinni með tölurnar sem birtust í þessu svari frá fjármálaráðuneytinu og hér hefur verið í umræðunni.

Ég vil segja um endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu að ég vil í fyrsta lagi að við fækkum undanþágum. Ég vil í öðru lagi minnka bilið á milli þrepanna. Þessi vinna er komin af stað, ég hef talað mjög skýrt um að einfalda kerfið, hafa færri undanþágur og minna bil á milli þrepa. Það þýðir hærra neðra þrep, lægra efra þrep og það mun hafa í för með sér breytingar (Forseti hringir.) fyrir ferðaþjónustuna.

Náttúrupassaumræðan er síðan alveg sérstök umræða sem ekki gefst tími til að fara í hér.