143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er víða komið við í fyrirspurn málshefjanda og ég skal gera mitt besta til að svara sem mestu í fyrri ræðu minni og vísa til seinni ræðu með aðra hluti.

Unnið hefur verið eftir áætlun um afnám fjármagnshafta sem kynnt var í mars 2011 og miðaði fyrst og fremst að því að draga úr áhættu tengdri aflandskrónum. Hins vegar var ljóst þegar ný ríkisstjórn tók við að það þyrfti að uppfæra afnámsáætlun um losun fjármagnshafta þar sem hún tók ekki nægilegt tillit til stöðu slitabúanna og áhrifa þeirra á greiðslujöfnuðinn í framtíðinni. Vinna við að endurskoða áætlun um losun fjármagnshafta er í fullum gangi. Ekki er langt síðan Seðlabankinn skilaði af sér nýrri greiningu á greiðslujöfnuði við útlönd til að spá um það hvernig hann mundi þróast næstu árin. Yfirstjórn þess verkefnis er í höndum stýrinefndar um afnám fjármagnshafta undir forustu ráðherra fjármála- og efnahagsmála, þar undir er að störfum sérstök verkefnisstjórn. Þetta er svipað stjórnskipulag á málum og gilti í tíð síðustu ríkisstjórnar. En við höfum sett upp til hliðar við stýrinefndina sérstaka ráðgjafarnefnd, ráðgjafarhóp, og það eru þær breytingar á fyrirkomulaginu sem ég vísaði til þegar ég talaði fyrir skemmstu um það að við værum að vinna eftir nýju verklagi í þessum efnum.

Við höfum einnig haldið nokkra fundi með samráðsnefnd fulltrúa þingflokka til að halda öðrum þingflokkum upplýstum um stöðu mála. Vandi slitabúanna og möguleg neikvæð áhrif þeirra á stöðugleika í efnahagslífinu eru meðal helstu ástæðna þess að hægt hefur gengið að afnema fjármagnshöftin. Því er mjög brýnt fyrir Ísland að þetta mál leysist farsællega og erfitt að stíga nein stór skref í afnámi fyrr en málin skýrast.

Spurt er hvort ég telji raunhæft að leysa höftin á þessu ári. Ég bendi einfaldlega á að ef hægt er að samstilla væntingar þeirra sem hér eiga hagsmuni undir, þeirra sem eiga kröfur á þrotabúin, slitabúin sjálf og annarra þeirra sem að málum koma, sé ég ekkert í sjálfu sér tæknilegt, lagalegt eða annað hvað varðar það ferli sem þá þarf að taka við sem eigi að valda því eitt og sér að afnámsferlið taki mörg ár, en á meðan það gerist ekki dragast hlutirnir áfram.

Í því samhengi hef ég áður nefnt að til greina gæti komið að setja inn sólarlagsákvæði á slitameðferð til samræmis við það sem þekkist erlendis, til að mynda Dodd-Frank löggjöfin í Bandaríkjunum þar sem fallin fjármálafyrirtæki hafa tiltekinn tíma til að klára sína slitameðferð með ákveðnu framlengingarákvæði.

Ég hef áður sagt að skilyrði geti skapast til að aflétta fjármagnshöftum á tiltölulega skömmum tíma, en það á veltur mikið á slitabúunum. Fjármagnshöftin eru hins vegar í dag mjög íþyngjandi eins og komið var inn á fyrir innlenda aðila. Mér finnst að það ætti að skoða óháð úrlausn annarra mála hvort ekki mætti létta aðeins á höftunum gagnvart heimilunum og fyrirtækjum á Íslandi. Ég tel að hægt væri að stíga ákveðin skref í því efni án þess að heildarhagsmunum væri fórnað í málinu.

Varðandi samráð við erlenda aðila eru ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála og Seðlabankinn í reglulegum samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og fleiri alþjóðastofnanir þar sem greiðslujöfnuður og fjármagnshöft á Íslandi eru meðal annars rædd. Ég tek undir það með málshefjanda að til að efla traust á ferlinu öllu skiptir máli að halda ytra umhverfinu upplýstu. Við erum háð því að njóta góðra kjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og skiptir máli að gott gegnsæi sé í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar.

Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af EES-samningnum í þessu samhengi þar sem í þeim samningi eru ákvæði sem heimila aðildarríki að grípa til ráðstafana til að hindra óvenjulegt fjárstreymi úr landi, en þar er kveðið á um ákveðnar varnaðaraðgerðir fyrir ríki sem eiga í örðugleikum með greiðslujöfnuð í viðskiptum við útlönd og eins ef hætta er á að slíkt ástand skapist. Nýjasta greining á greiðslujöfnuði þjóðarbúsins bendir eindregið til þess að slík skilyrði séu til staðar fyrir Ísland til þess að beita höftum enn um sinn.

Ég mun í síðari ræðu minni koma frekar inn á það hvað við getum gert til að efla traust á íslensku hagkerfi. Þar kemur margt til, margt sem við þurfum að gera alveg óháð höftunum, alveg óháð því að við erum að glíma við afnám haftanna og það hvernig við gerum á endanum upp við hin föllnu fjármálafyrirtæki og við aflandskrónuvandann. Þar held ég að við getum verið sammála um að við gætum gert talsvert betur og ýmsar aðgerðir eru í undirbúningi á vettvangi (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar sem munu gagnast í því sambandi.