143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:31]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lét nýlega þau orð falla í viðtali við Aftenposten í Noregi, með leyfi forseta: „að engin vandamál væru fyrir fjárfesta að koma til Íslands í dag, en huglæg áhrif haftanna væru veruleg.“

Að gefnu tilefni langar mig að veita hæstv. ráðherra örlitla innsýn í raunveruleika íslenskra sprotafyrirtækja.

Rannsóknir á atvinnusköpun hafa sýnt fram á að ein mikilvægustu hjól atvinnusköpunar eru ört vaxandi sprotafyrirtæki. Vegna tregðu erlendra fjárfesta við að koma að innlendri fjárfestingu hafa sprotar í síauknum mæli þurft að flytja hluta starfsemi sinnar til útlanda. Þótt leyfi fáist yfirleitt er mikil óvissa um hve langan tíma það tekur, auk þess sem það er alltaf með erfiðum skilyrðum. Vandinn er sá að Seðlabankinn gerir engan greinarmun á umsóknum eftir stærð fyrirtækja, hvað þá um hvers konar upphæðir er að ræða. Þar að auki er ferlið allt of tímafrekt og þar af leiðandi kostnaðarsamt.

Seðlabankinn gefur sér að lágmarki átta vikur í undanþáguferlið, en flest dæmi spanna marga mánuði. Sem dæmi tók það sprotafyrirtækið Klöru marga mánuði að fá að stofna dótturfélag í Bandaríkjunum og lögfræðikostnaðurinn við að millifæra einn bandaríkjadal var 750 þús. kr.

Annað nýlegt dæmi er fyrirtækið Skema sem hæstv. iðnaðarmálaráðherra veitti nýverið verðlaunin „Skapandi ungir frumkvöðlar“. Til að fara hratt yfir sögu sótti Skema um undanþágu til að stofna móðurfélag í Bandaríkjunum og flytja 75,6 dollara út. Undanþáguferlið tók átta mánuði og kostaði félagið 1 milljón kr. í lögfræðikostnað.

Að lokinni undanþágu og þar af leiðandi að fengnu leyfi til að lána erlendan gjaldmiðil á milli samsteypunnar kom í ljós að til þess að það væri hægt þurfti íslenska dótturfélagið að eiga til erlendan gjaldmiðil á íslenska bankareikningi sínum. Vitanlega átti það hann ekki til og þurfti því aftur sækja um undanþágu til að kaupa 14,5 dollara og færa 0,9 dollara yfir í erlent félag. Það ferli er enn í gangi, með ófyrirséðum kostnaði og tíma.

Mig langar að spyrja: Hvað finnst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þetta? Eru þetta huglæg áhrif haftanna eða raunverulegur vandi sem við getum verið sammála um (Forseti hringir.) að þurfi alla vega að mæta algjörum forgangi hæstv. ríkisstjórnar og það strax?