143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fáum blandast hugur um að afnám hafta á fjármagnsflutninga er meðal mikilvægustu en jafnframt vandasömustu viðfangsefna stjórnvalda. Gjaldeyrishöftin eru í sjálfu sér merki um vandkvæði sem ekki er unnt að takast á við nema með hömlum og þvingunaraðgerðum. Þau lýsa áberandi veikleika í íslenskum efnahagsmálum og vanmætti í hagstjórn. Þau vekja vantrú á því að hér sé hægt að stunda eðlileg viðskipti og þau bjóða heim hættu á mismunun, spillingu og braski.

Undir lok kosningabaráttunnar síðasta vor létu forustumenn ríkisstjórnarinnar í veðri vaka að þess gæti verið skammt að bíða að gjaldeyrishöft yrðu leyst. En fljótlega eftir að ríkisstjórnin hafði tekið við völdum varð ljóst að raunin yrði önnur. Um það bil mánuði eftir kosningar hafði það runnið upp fyrir hæstv. forsætisráðherra að ekki yrði hróflað við höftum nema áður lægi fyrir hver stefna þrotabúa bankanna væri. Á einum mánuði hafði verkefnið sem áður lá ljóst fyrir orðið flókið og jafnframt háð aðgerðum og stefnu þeirra sem fara með málefni þrotabúanna.

Ríkisstjórnin viðurkennir í stefnuyfirlýsingu sinni frá síðasta vori þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar verður að vinna að afnámi fjármagnshafta en gjaldeyrishöftin bjaga eignaverð og draga úr samkeppnishæfi þjóðarinnar.“

Það er út af fyrir sig traustvekjandi að sjá að forkólfar hæstv. ríkisstjórnar gera sér grein fyrir skaðsemi gjaldeyrishaftanna, en það sem við blasir þegar litið er yfir vegferð hennar það tæpa ár sem liðið er frá því að stefnuyfirlýsingin var fest á blað er í raun ekki ýkja traustvekjandi. Gjaldeyrishöftin eru enn við lýði eins og þau voru þegar stefnuyfirlýsingin var samin og ekkert gefur til kynna að þau séu á förum á næstunni.

Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar er því hreint út í sömu sporum og fyrir tæpu ári. Forustumenn stjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, hafa vissulega sagt ýmislegt um málefnið á starfstíma ríkisstjórnarinnar en því miður hafa ummæli þeirra verið svo misvísandi og sundurlaus að þar grillir hvorki í trúverðuga stefnu né verkáætlun í því mikilvæga verkefni sem afnám gjaldeyrishafta er.