143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Afnám hafta er vissulega aðkallandi mál og vil ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að taka það upp hér við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og þingið.

Virðulegi forseti. Afnám hafta og umræðan um eftir hvaða plani, hvaða áætlun er unnið hefur margoft komið fram í máli hæstv. ráðherra, bæði fjármála- og efnahagsráðherra og reyndar líka hæstv. forsætisráðherra, að það þjóni ekki tilgangi sínum að opinbera þá áætlun. Ég vil taka undir það. Það væri beinlínis óskynsamlegt að afhenda leikáætlunina. Það gefur nánast augaleið. Mætti ætla að það mundi frekar gagnast andstæðingunum, ef við leyfum okkur að nota þá samlíkingu. Kannski má segja að það sé ekki sanngjarnt að stilla þessu þannig upp vegna þess að þegar dagurinn er á enda eru það sameiginlegir hagsmunir beggja að leysa þessa stöðu.

Mikilvægast er að vinna að afnámi hafta með aðgerðum, en vissulega blandast þar inn í einhvers konar viðræður til samninga sem grundvallast á sameiginlegum hagsmunum. Er þá væntanlega um að ræða kröfuhafa gömlu bankanna og slitastjórnir þeirra og aðra fulltrúa fjárfesta sem eiga krónueignir.

Það hefur hins vegar ítrekað komið fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að unnið er markvisst eftir áætlun um losun haftanna og mikilvægur hluti af því er vinna samráðshóps og stýrinefndar og Seðlabanka Íslands að líkani sem nýtist við áætlun um mat á greiðslujöfnun.