143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er þetta mál pólitískt. Ég var ekki að segja annað í fyrri ræðu minni. Það er pólitískt ef við bara horfum á það að ef Sjálfstæðisflokknum tekst ekki að afnema höft er það gríðarlegur ósigur fyrir það málefni sem þeir vilja standa framast í, kenna sig við og hafa forskot að verja; að vera með góða efnahagsstjórn. Það er það sem þeirra kjósendur horfa til. Þannig að sjálfsögðu er málið pólitískt.

En við getum ekki eða ættum ekki, sér í lagi ekki ef við viljum hraða farsælu afnámi hafta, að láta málið verða að pólitísku bitbeini eða reyna að tefja eða skemma eða á einhvern hátt þvælast fyrir því ferli með því að nota það í eitthvert pólitískt stríð. Það eigum við ekki að gera.

Þeir sem vilja hratt og farsælt afnám hafta ættu að koma að þessu borði, krefjast meiri upplýsinga frá stjórnarherrunum, frá þeim sem stýra þessu ferli, og taka þátt, en ekki reyna að bregða fæti fyrir það.