143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er búin að vera nokkuð fróðleg. Ályktunin sem ég dreg er að það er ekkert plan. Það eru ýmsar pælingar í gangi eins og um að beita sólarlagsákvæðum á slit þrotabúanna og að veita innlendum heimilum og fyrirtækjum hugsanlega einhvers konar undanþágu frá höftunum. Þetta eru pælingar, ekki hluti af heildstæðu plani.

Ég vara eindregið við hugmyndum um að hafa einhvers konar leynilegt plan. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé eitthvert leynilegt plan til, hann getur þá alla vega sagt okkur það. Ég vara eindregið við því. Haftaumhverfi er gróðrarstía spillingar og óréttlætis. Við hljótum að vilja búa í þannig opnu samfélagi að allar áætlanir um svona stór og mikilvæg mál séu fyrirliggjandi og gagnsæjar.

Mér finnst spurningum ósvarað. Ég tel að það sé gott plan að halda dyrunum opnum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og vinna að lausn haftanna í samvinnu við Seðlabanka Evrópu. Það var byrjað á því en hefur verið hætt. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, hefur t.d. kallað það einhvern stærsta skaðann sem hlotist hefur af Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, í grein um síðustu helgi.

Ég þarf líka að fá svör við þeim spurningum hvort hæstv. ráðherra telji það samrýmast EES-samningnum til langs tíma að höft verða í þeirri mynd sem skýrsla ráðuneytis hans boðar í framtíðinni. Það eru ekki tímabundin höft að mínu viti.

Svo verð ég að spyrja út í eitt að lokum. Þetta eru fjölmargar spurningar, vissulega, en um stórt mál.

Talað var um það af hálfu hæstv. forsætisráðherra, og að ég hygg hæstv. fjármálaráðherra líka, í aðdraganda kosninga að núna væri tækifæri, einstakt tækifæri til að semja við kröfuhafa þrotabúanna. Þar mundi hugsanlega liggja mikið (Forseti hringir.) svigrúm. Síðan hefur ekkert heyrst af þeim samningaviðræðum. (Forseti hringir.) Ég skildi aldrei almennilega þetta tal. En mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Var það innan tómt?