143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur á köflum verið ágæt. Sumt sem sagt hefur verið stenst ekki skoðun. Í fyrsta lagi: Ríkisstjórnin er með það sem eitt af sínum forgangsmálum að vinna að afnámi hafta. Þeir sem hafa komið hér upp og segja að það gangi ekki nægilega hratt eða vilja láta málið ganga eftir einhverjum öðrum leiðum hafa fæstir hugmyndir um það hvernig ætti að gera þetta öðruvísi. Ég hef bent á það að í fyrri áætlun um losun afnáms hafta hafi ekki verið tekið tillit nema til hluta vandans. Ég hef líka greint frá því að við höfum haft hóp sérfræðinga að störfum sem hefur verið að greina fyrir ríkisstjórnina og Seðlabankann sérstaklega hvaða kraftar eru að verki í þrotabúunum, hjá þeim sem eiga aflandskrónur, hjá þeim sem skulda í erlendum gjaldmiðlum og öðrum, sem hafa þau áhrif að greiðslujafnaðarspáin fyrir framtíðina lítur ekki betur út en raun ber vitni.

Við erum líka núna í fyrsta skipti komin með uppfærða greiðslujafnaðaráætlun til framtíðar. Þetta eru hlutir sem menn verða að hafa til þess að geta tekið af einhverri skynsemi, með einhverjum málefnalegum hætti, afstöðu til beiðna um undanþágu frá höftunum.

Varðandi undanþágur frá höftunum þá er það hlutverk slitastjórna og kröfuhafa bankanna að leita eftir nauðasamningum um uppgjör þeirra sín í milli. Hvorki Seðlabankinn né stjórnvöld ætla að hafa þar beina aðkomu. Slitabúin eru innlend fyrirtæki. Þau starfa í fjármagnshöftum. Vilji þau losna undan byrðum haftanna þurfa þau eins og aðrir innlendir aðilar að tryggja að þær undanþágur sem þau sækjast eftir hafi ekki neikvæð áhrif á þjóðarbúið og þar með þá sem eftir sitja. Lok nauðasamninga og veiting undanþágna frá fjármagnshöftum strandar því fyrst og fremst á þessum félögum sjálfum.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að skipta á skjótri lausn og stöðugleika. Við erum að verja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Við erum að verja heimilin, atvinnulífið, ríkissjóð, sveitarfélög og aðra sem starfa í þessu hagkerfi með því að fara gætilega, (Forseti hringir.) með því að ana ekki fram án þess að hafa öll gögn, allar upplýsingar og greiningar á stöðunni í höndunum. (Forseti hringir.) Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á breytt verklag. (Forseti hringir.) Við höfum núna gögnin. Við erum í mun betri stöðu en áður til þess að taka afstöðu til málsins og byggja aðgerðir til framtíðar (Forseti hringir.) á þeim upplýsingum.