143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[14:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það eru ýmsar ástæður fyrir því hver staða sjóðsins er. Ég get hins vegar ekki fallist á, enda heyrði ég svo sem ekki mikil og góð rök fyrir því, að starfsmenn sjóðsins hafi í störfum sínum með einhverjum hætti verið áhrifavaldar, hvað þá stórir áhrifavaldar varðandi stöðu sjóðsins í dag.

Ég spyr hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur: Í hverju fólst háttsemi stjórnarmanna og starfsmanna sjóðsins? Fóru þeir út fyrir lög og reglur? Gerðu þeir eitthvað sem ekki var heimilt eða fóru þeir kannski bara eftir þeirri pólitík, pólitísku stefnumörkun og þeim ákvörðunum sem teknar höfðu verið á öðrum stöðum? Hefðu þeir ekki farið eftir því og þeim reglum sem verið hafa í því skyni að reyna að minnka tjónið þá væri ábyrgð þeirra kannski einhver, en ég vil fá nákvæmari rökstuðning fyrir því: Í hverju fólust mistök og hvað nákvæmlega gerðu þeir rangt sem olli því tjóni sem hér um ræðir?