143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum bara ekki sammála, ég og hv. þingmaður. Hann vill augljóslega skrifa, heyrist mér, öll þau mistök sem orðið hafa í kringum Íbúðalánasjóð á alþingismenn, það virðist vera hans skoðun. En ég lít þannig á að þetta sé miklu víðtækara en svo. Að sjálfsögðu eru það þingmenn á hverjum tíma sem setja lög og reglur og bera ábyrgð á þeim. En það breytir því ekki að ef við erum starfandi í einhverjum nefndum fyrir hönd hins opinbera og við teljum að augljóslega sé ekki verið að vinna þeirri stofnun gagn sem við störfum fyrir sem stjórnarmeðlimur, framkvæmdastjóri eða forstjóri, að verið sé að gera eitthvað sem ekki telst vera gott fyrir stofnunina, þá á fólk að bregðast við og það er alveg hægt að gera það með skýrum hætti.

Ég er því ekki sammála hv. þingmanni, því að ég tel hlutverk stjórna, hvort sem það er stjórn Íbúðalánasjóðs eða háskólaráðs eða LÍN eða hvers sem er, sé í raun að minnka alla þá áhættu sem getur orðið vegna stofnunarinnar og fyrir skattborgarana. Það hlýtur að vera þannig þegar við störfum hjá hinu opinbera í svona stjórnum eða sem forstjórar eða framkvæmdastjórar tiltekinnar stofnunar. Það hlýtur að vera markmiðið.