143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fyrir framsögu hans á meirihlutaáliti nefndarinnar og jafnframt hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir hennar framsögu fyrir áliti minni hlutans.

Þrátt fyrir að hér sé um að ræða tvö álit var góð samstaða í nefndinni um skipulag efnismeðferðar, vinnuhætti og verklag. Mér finnst mikilvægt að það komi fram vegna þess að ég ætla að ræða í upphafi um störf nefndarinnar og skýrsluna í samhengi við það í hvaða stemningu skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom inn í nefndina.

Rannsóknarnefndin afhenti hæstv. forseta Alþingis skýrsluna 2. júlí 2013. Það var augljóst frá þeim sama degi þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði fengið hana í hendur að verkið yrði í senn vandasamt og viðamikið, að minnsta kosti lá þykkur bunki í fjórum bindum fyrir framan nefndarmenn þar sem ákveðið var í kjölfar þessarar afhendingar á fundi nefndarinnar að Alþingi tæki hana til umfjöllunar áður en nefndin tæki hana til efnislegrar meðferðar.

Það má segja að hv. þingmönnum hafi gefist lítill tími til að kynna sér efni skýrslunnar ítarlega. Umfjöllun á Alþingi hefur verið nokkuð hranaleg eða hrá og kannski skiljanlega upphrópunarkennd í besta falli, enda óðs manns æði að ná utan um þúsund blaðsíðna efni á einum sólarhring. Ég vil því meina að skýrslan hafi þotið með nokkrum hvelli og kannski óþarfageðshræringu til hv. nefndar og efnislegar meðferðar.

Jafnframt má segja að fjölmiðlaumfjöllunin hafi verið á þessum nótum með hástemmdum fyrirsögnum um mistök, misferli, klúður og meint tap sjóðsins. Fljótlega snerist þó umræðan upp í gagnrýni á skýrsluna sjálfa og þá skírskota ég til fjölmiðlaumfjöllunar fyrst og fremst. Meðal annars birtust greinar frá aðilum sem veist er að í skýrslunni. Margir hverjir brugðust hart við gegn orðalagi og fullyrðingum sem er að finna í skýrslunni og töldu hana á köflum dylgjukennda og óvandaða í samræmi við það.

Ég tel rétt að rekja þetta þar sem þessi atburðarás skóp það andrúmsloft sem umlukti skýrsluna þegar hún koma til kasta hv. nefndar. Ég vil þó meina að það vinnuferli sem hv. framsögumaður og formaður nefndarinnar kom á í góðri sátt og samvinnu við nefndina hafi gert það að verkum að þetta hafi ekki haft nein áhrif á framsetningu og þær niðurstöður sem birtast í umræddu nefndaráliti.

Rannsóknarnefndin sjálf var skipuð í september 2011 þar sem lagt var til grundvallar í þingsályktun að rannsaka starfsemi sjóðsins, þær breytingar sem áttu sér stað á lánareglum og fjármögnun og hrint var í framkvæmd 2004, en tímabilið sem afmarkað er í vinnu rannsóknarnefndarinnar og umræddri þingsályktun nær yfir árin 2004–2010. Markmiðið sem rannsóknarnefndinni var ætlað að hafa að leiðarljósi var að meta áhrifin af breytingum, stefnu sjóðsins, fjárhag og fasteignamarkaðinn í heild sinni.

Þetta er ekki lítið verk en þetta var bara eitt af þremur markmiðum. Jafnframt átti hún að meta áhrifin af starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála. Hvar stoppar það og hvar byrjar það að meta hvernig sjóðnum hafi tekist til við að sinna lögbundnu hlutverki sínu? Ég spyr, virðulegi forseti. Kannski er í besta falli hægt að vega og meta í skýrslunni hvaða ákvarðanir sem teknar eru á þessu árabili hafi gengið upp og hverjar ekki, hvar farið er á svig við lög og hvar ekki, hvar og hvenær stjórnsýslan bregst og hvenær ekki.

Þá eru fjölmörg atriði í þingsályktuninni. Í 14 liðum eru talin upp atriði sem rannsóknarnefndinni var falið að vinna eftir. 14. liðurinn er reyndar þannig orðaður að rannsóknarnefndinni er gefið fullt rými og sjálfsvald til að rannsaka allt að því allt sem henni hugnast. Ég leyfi mér að orða það svo. Liðurinn er svona orðaður í þingsályktuninni, með leyfi forseta:

„Annað sem rannsóknarnefnd kann að komast að við rannsókn sína og telur ástæðu til að upplýsa Alþingi um.“

Þegar við erum að tala um hina stóru ábyrgð eða hvað við getum lært af skýrslunni, og þá er ég ekki að vitna um það hvaða misbrestur varð á starfsemi Íbúðalánasjóðs heldur þannig að við á Alþingi getum sinnt eftirlitshlutverki okkar, er þetta nokkuð sem ætti að forðast í framtíðinni þegar við setjum af stað vinnu rannsóknarnefnda.

Skýrslan er að mínu áliti meiri að umfangi en efni stóðu til og má vera að það megi að hluta til kenna þessu orðalagi um. Ábyrgð rannsóknarnefndarinnar gagnvart þess konar mati verður að minnsta kosti vandasöm og mikil. Það er ástæða til að vanda sig.

Virðulegi forseti. Það var ljóst þegar í byrjun að gestir á opnum fundum nefndarinnar voru í meira lagi ósáttir og voru í mörgum atriðum ósammála þeim staðhæfingum sem mátti lesa í skýrslunni. Það var og ljóst þegar á leið og tækifæri gafst til að gaumgæfa og ígrunda efni skýrslunnar og bera saman við frásagnir gesta að mikill misbrestur var á því í störfum rannsóknarnefndarinnar að leita eftir sjónarmiðum og eftir atvikum útskýringum þeirra sem gagnrýndir voru persónulega fyrir þekkingarleysi, handvömm eða slæleg vinnubrögð. Tel ég það afar óheppilegt, og ekki einungis fyrir það að það hafi gert störf nefndarinnar erfiðari. Ég tek undir með flestum hv. þingmönnum sem hafa sammælst um að það sé grafalavarlegt mál þegar viðkomandi aðilum er ekki gefið færi á að beita andmælarétti sínum. Það kemur skýrt fram bæði í áliti meiri hluta og minni hluta.

Þetta var eins konar áfellisdómur á fyrstu stigum í vinnslu með skýrsluna en fleira fylgdi á eftir. Í fylgiskjali má sjá leiðréttingar sem voru unnar af skrifstofu Alþingis þegar á fyrstu dögunum. Efnisleg meðferð var þannig að mínu viti í byrjun snúnari og meiri krafa að því leytinu til gerð til nefndarinnar.

Í nefndarálitinu er farin sú leið að rekja niðurstöðu skýrslunnar í samræmi við liðina 13 og ég hvet alla áhugasama til að kynna sér það vel. Þar er vinna nefndarinnar rakin mjög vel og farið vandlega yfir það hvaða gagnrýni kemur fram í skýrslunni. Vissulega er margt sem við eigum og verðum beinlínis að taka tillit til. Það sem ég hefði viljað koma inn á er umræðan um meint tap sjóðsins upp á 270 milljarða að núvirði. Meiri hlutinn tekur ekki undir með rannsóknarnefndinni að því leytinu til að hér er um að ræða afar ólíklega sviðsmynd sem þó er sett þannig fram í skýrslunni að það megi flagga slíkri tölu.

Þá hefði ég viljað koma inn á 90% lánin margumtöluðu. Ég hrósa rannsóknarnefndinni fyrir að afhjúpa þá mýtu.

Virðulegi forseti. Að lokum ítreka ég það álit meiri og minni hluta að við höfum ávallt hugfast hversu nauðsynlegt það er að Alþingi nýti þau verkfæri (Forseti hringir.) sem það hefur til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Það er kannski þar sem við getum lært hvað mest af vinnubrögðunum við þessa skýrslu.