143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:16]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er býsna langt í blaðsíðum talið, það er um 80 síður en 126 síður með fylgiskjölum.

Ég er nú stundum gáttaður á ýmsu og ég er gáttaður á ýmsum vondum ræðum sem hér hafa verið fluttar.

Ég ætla að rifja það upp að fyrir allmörgum árum hafði Skipaútgerð ríkisins fengið framlög upp á 3 milljarða úr ríkissjóði, sem eru náttúrlega smámunir miðað við það sem nú gerist. Þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, vildi skoða það mál og sú skoðun kostaði nokkur hundruð þúsund krónur og var greidd endurskoðunarfyrirtæki á Akureyri. Hann bauð þeim sem vann skýrsluna í mat á Bautann sem kostaði 30 þúsund kr. Alþingi ræddi síðar um 30 þúsund krónurnar.

Alþingi ræðir nú um þær 248 milljónir sem skýrsla þessi kostar og hneykslast á því og finnst það mikið. En Alþingi finnst það ekki mikið að tap umrædds sjóðs hefur að lágmarki verið 60 milljarðar og kann að verða allt að 270 ef allt fer á versta veg. Hér eru menn því að horfa algjörlega á smáatriðin þegar hugsanlegt tap kann að nema 1–2 millj. kr. á hvert heimili.

Nálgun meiri hluta nefndarinnar er á þann veg að hvítþvo eigi stjórnendur Íbúðalánasjóðs en þeir og við sitjum uppi með þetta tjón. Einhver kann að segja að nálgun skýrsluhöfunda rannsóknarnefndarinnar hafi verið heldur hliðholl fjármálamarkaði, ég er algjörlega ósammála því.

Þannig er að ég er kunnugur þessu máli nokkurn veginn frá árinu 2005. Þá gerist það, sem allt virðist horfa á, þ.e. 90% lánin. En 90% lánin eru algjört aukaatriði því að 90% af tiltölulega lágri fjárhæð er viðráðanlegt en 90% af háum fjárhæðum og lágum launum er illviðráðanlegt.

Þegar bankarnir komu inn á húsnæðismarkaðinn hækkaði húsnæðisverð ört og var hægt að lána einstaklingum og fjölskyldum mun hærri upphæðir. Þegar bankarnir ryðjast inn á íbúðalánamarkaðinn segir einn tiltekinn bankastjóri — og vitna ég í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

Tiltekinn bankastjóri „segir að húsnæðislán bankanna hafi verið „tómt rugl“. Lánin voru á of lágum vöxtum fyrir bankana og hann sá ekki hvernig þetta ætti að vera gerlegt: „En hvað áttirðu að gera? Þegar kerfið er hannað þannig að ef þú ferð í viðskipti þá ertu læstur næstu 40 ár. Hvað áttu að gera? Og þú bara ferð út í vitleysuna líka. Og ég var alltaf hissa á að Moody‘s sögðu ekki við mann: Eruð þið klikkaðir? Ég var alltaf að vona að þeir mundu setja eitthvert vit í galskapinn.““

Á þeim tíma gefur Íbúðalánasjóður í, hann fer að lána, ekki bönkunum, hann fer að lána í gegnum bankana. Þegar íbúðaverð hefur hækkað um 60% gefur hann í og íbúðaverð hækkar aftur um 60%, og þá er ég að tala um raunverð. Íbúðaverð hækkar um 170% frá 1998 til 2007 þegar það nær hæstum hæðum og á þeim tíma er Íbúðalánasjóður að gefa í og hann fjármagnar vitleysuna. Hann lánar fram hjá öllum reglum, hann lánar fram hjá reglugerðum sem félagsmálaráðuneytið setur, hann lánar í gegnum bankana. Þessi lán, sem voru tæplega 100 milljarðar, sem komu að vísu í birtum reikningum bankanna og sparisjóða fram, en voru það ekki, eins og segir í samningunum sem ég hef undir höndum, enda var áhætta Íbúðalánasjóðs. Þegar eiginfjárkrafa þessara stofnana var reiknuð þurfti ekki að taka tillit til þess. Þegar þessir bankar fara á hliðina er þetta afhent eins og það sé aðskilið og þetta séu vörslueignir, þannig að hann fer þarna algjörlega fram hjá öllum reglum félagsmálaráðuneytisins. Hv. þm. Brynjar Níelsson telur að hér hafi ekkert lögbrot verið framið, ég kem að því síðar.

Það sem Íbúðalánasjóður er að gera, hann er að reyna að breyta eðli sínu, því er ekki breytt héðan. Eðli Íbúðalánasjóðs getur aðeins breyst frá Alþingi. Hann er að breyta eðli sínu frá því að vera við getum sagt félagsleg stofnun sem lánar að hámarki 15,8 milljónir í heildsölubanka. Eitt af því sem hann gerir er að hann lánar í gegnum bankana. Hann fer út í það að lána byggingaraðilum til verkefna þar sem afköst byggingaraðilans réðu í rauninni lánsfjárhæðinni. Og þannig eru byggðar nokkrar blokkir austur á Héraði, á Egilsstöðum og sömuleiðis á Reyðarfirði, án þess að séð hafi verið um söluna.

Síðan kemur snilldin. Hún er sú að það verður að koma starfseminni út á land og í stað þess að banka upp á hjá Reiknistofu bankanna, sem hefur vissulega einokun á greiðslumiðlun, fara menn í Sparisjóð Hólahrepps til að viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs þurfi að greiða Sparisjóði Hólahrepps sérstakt gjald á hverjum gjalddaga. Og til að kóróna vitleysuna eru lagðar 300 milljónir inn í Sparisjóð Hólahrepps sem varasjóður. Hvernig getur þetta verið varasjóður ef á þarf að halda? Ef Íbúðalánasjóður þarf á þessu að halda, hvernig getur lítill sveitarsparisjóður losað 300 milljónir? Segið mér það?

Í áliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega skal tekið fram að litið er á gagnrýni rannsóknarnefndarinnar til að læra af henni en ekki varpa skugga á þá sem gegndu þessum störfum á sínum tíma.“

Auðvitað varpar þetta skugga á starfsemi þessara heilögu manna sem þarna komu að.

Þá ætla ég að nefna annað sem virðist ekki hafa farið hátt. Ég ætla að lesa úr bréfi sem Íbúðalánasjóður skrifar til Fjármálaeftirlitsins árið 2005, með leyfi forseta:

„Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans. Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa. Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán. Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða. Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki sem sjóðnum er að lögum falið.“

Hvað segir þessi setning? Hún segir ósköp einfaldlega það að Íbúðalánasjóður tekur að sér að mynda vexti á markaði. Það getur enginn einn aðili myndað vexti á markaði. Íbúðalánasjóður er hér að fremja glæp sem heitir markaðsmisnotkun. Hann er að möndla með vexti og halda uppi vaxtastigi í landinu. Og hver borgar? Ég veit ekki hver borgar, en ég veit að lántakendur, samfélagið allt borgar. Brot á verðbréfamarkaði, eins og þetta er, er yfirleitt glæpur gegn samfélaginu og hérna liggur bara fyrir játning um markaðsmisnotkun.

Enn ætla ég að benda hv. þm. Brynjari Níelssyni á að hér hafi lögbrot verið framin enda er alveg með ólíkindum að það geti gerst að menn standi uppi með 60–270 milljarða tap án þess að einhvers staðar hafi verið pottur brotinn. Enda kemur alloft fram að erfitt var að afla upplýsinga.

Ég hóf mál mitt á því að fjalla um kostnaðinn, hann er 248 milljónir, sem ég tel nú tiltölulega lítið miðað við hæstu töp sem gætu orðið, eitt prómill. Það er erfitt að marka rannsóknarnefndum svið vegna þess að það sem á að rannsaka er ekki alltaf ljóst. Við stöndum hér af og til á Alþingi — ég stóð í því tvisvar í haust að greiða atkvæði með því að leggja sjóðnum til eigið fé.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið að sinni og ég verð að ljúka máli mínu, en get sagt ýmislegt fleira.