143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Íbúðalánasjóður var rekinn með hagnaði fram að hruni. Á honum hvíldu einhverjar skuldir frá fyrri tíð vegna verkamannabústaðakerfisins, menn höfðu ekki látið nægilegt fé af hendi rakna í það félagslega kerfi.

Síðan verður hér efnahagshrun og ég held að ástæða sé til að minna á það álit stjórnenda Íbúðalánasjóðs að yfir 90% af tapi Íbúðalánasjóðs megi rekja beint til hrunsins. Þetta er staðreynd.

Svo er það hitt varðandi lögbrotin að hv. þingmaður þarf að færa rök fyrir því sem hann er að segja, að reglur hafi verið brotnar og lög hafi verið brotin. Einnig væri fróðlegt að heyra hann útlista fyrir okkur hvert hafi verið tapið á lánasamningunum til bankanna. Við segjum það í áliti okkar, meiri hlutinn, að hann hefði betur keypt eigin bréf, við tökum undir þá gagnrýni (Forseti hringir.) í rannsóknarskýrslunni, en við þurfum þá að líka ræða meint tap sem af þessu varð (Forseti hringir.) eða af viðskiptum við Sparisjóð Hólahrepps, en þar varð ekki neitt tap.

Varðandi hitt að við séum að hvítþvo stjórnendur, við erum að reyna að láta menn njóta sannmælis.