143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í orð hans áðan. Hann ræddi 270 milljarða kr. töluna, taptöluna. Mig langar að biðja hann um að fara yfir það hvað til þurfi að koma til þess að sú tala verði að raunveruleika.

Mig langar að spyrja hann hvort hann sé ósammála því sem kemur fram í skýrslunni, skýringum Íbúðalánasjóðs, að af þeim 63 milljörðum kr. sem hafa þegar verið færðir sem tap, sem er vissulega há upphæð, séu 59 milljarðar kr. afleiðing hrunsins. Eins og fram hefur komið hér áður var Íbúðalánasjóður rekinn með hagnaði árið 2007, hann átti eigið fé.

Mig langar líka til þess að spyrja hv. þingmann út í það hvað hann telji að 95 milljarða lánveiting Íbúðalánasjóðs til viðskiptabankanna hafi spennt mikið upp íbúðaverð, þegar tekið er tillit til þess að íbúðalán bankanna fóru úr 800 milljörðum í 4.800 milljarða á árunum 2003–2008. Hvað telur hv. þingmaður að þeir 95 milljarðar sem bankarnir fengu að láni hjá Íbúðalánasjóði hafi spilað stóra rullu í þeirri verðhækkun sem varð á íbúðarhúsnæði á þessum tíma?