143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:41]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að þingmenn hlusti vel á ræður annarra. Ég sagði, held ég, í upphafi máls míns að 90% hámarkið væri aukaatriði í þessu máli. Ég segi líka að tjónið, þessir 59 milljarðar, sem er rakið til hrunsins — af hverju þvældu menn sér inn í þetta? Ég vitnaði í orð eins bankastjóra í þessu sem lýsti því yfir að þetta hefði verið klikkun. Af hverju þvældu menn sér inn í þetta? Hv. þingmaðurinn segir að bankarnir hafi dælt 30 milljörðum út og hvaðan pumpuðu þeir 30 milljörðum á mánuði? Þeir pumpuðu út úr Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður tók þátt í galskapnum vegna þess að hann var að breyta eðli sínu úr því að vera félagsleg lánastofnun yfir í að vera heildsölubanki. Hann vildi taka þátt í þessu, hann vildi leika sér eins og hinir strákarnir. Það var nákvæmlega það sem hann gerði.

Ég veit ekki hvort ég hef möguleika til andsvara aftur, en þegar sú orðræða sem hér fer fram verður lesin þegar við erum dauð fara menn ábyggilega að velta fyrir sér: Hvern fjandann voru menn að verja? Ég heyri það að einn stjórnmálaflokkur, sem mér er annt að hugsa um, Framsóknarflokkurinn, tekur heiftarlega til varna og finnst á sig ráðist, (Gripið fram í: Nei.) alla vega miðað við varnarviðbrögðin. Ég segi ósköp einfaldlega: Þetta er undarlegt atferli og ég vona að ég lifi þann tíma þegar þetta orðfæri verður rannsakað.

Ég vona að ég hafi svarað spurningunni.