143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún sé sannarlega nauðsynleg þótt hún sé auðvitað engum ánægjuefni sem þarf að taka þátt í henni. Þessi fjögurra binda skýrsla sem við ræddum í gær er meira og minna einn samfelldur áfellisdómur yfir pólitíska kerfinu og röngum ákvörðunum, fyrst og fremst teknum hér en auðvitað líka í ríkisstjórn á sínum tíma og eins í Íbúðalánasjóði.

Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur sem nú erum hér að horfast í augu við þau mistök og reyna ekki að draga dul á það að þau hafa í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir Ísland og Íslendinga. Hvað þau kosta hvert heimili í landinu er út af fyrir sig hægt að deila um, eins og hefur verið gert í þessari umræðu, hvort beinn kostnaður hvers heimilis sé 1 millj. kr., eða 2 millj. kr. Hvort heldur er er það gríðarlega alvarlegt tjón. Það er einfaldlega það sem margur maðurinn safnar sér í eigin fé á mörgum árum í íbúðarhúsnæði sínu og eitthvað sem verður að taka af mikilli alvöru og fyrst og fremst reyna að læra af, fremur en að finna blóraböggla í einstaklingum.

Ég held að í öllum meginatriðum sé niðurstaða þessarar umfjöllunar sú að rannsóknarskýrslan og niðurstöður hennar standa. Það er pólitíska kerfið sem er ábyrgt fyrir þessum mistökum. Þau eru gríðarlega umfangsmikil og alvarleg.

Það er rétt að við megum almennt um rannsóknarskýrslur huga að því og festa í lög að einstaklingar sem fjallað er um í slíkum skýrslum fái tækifæri til þess að koma á framfæri andmælum áður en þær eru birtar opinberlega. Ég varð þó fyrst og fremst var við eina alvarlega missögn í skýrslunni sem varðaði einstakling og heiður hans. Það var ranglega sagt til um það hver hefði verið í stjórn Fjármálaeftirlitsins á hverjum tíma og orð höfð um ráðningu Páls Gunnars Pálssonar sem ég tel reist á ákaflega hæpnum heimildum og ákaflega vafasamt að vega með þeim hætti að grandvörum embættismanni sem stýrt hefur mikilvægum stofnunum með miklum sóma. Ég tel auk þess ákaflega hæpið að gera það að umfjöllunarefni að einhver sé sonur föður síns. Það er þannig að við erum börn foreldra okkar og að draga þá staðreynd inn í mál er varasamt, ætla ég að leyfa mér að segja og tel að það sé varlega sagt.

Að því atriði frátöldu held ég meginverkefni okkar sé að reyna að átta okkur á því hvað það var sem gerðist. Ég fyrir mitt leyti, af því að ég hef um áratugaskeið komið að húsnæðismálum á Íslandi með einum eða öðrum hætti, ætla að reyna að lýsa því hvernig ég sé þetta hafa gerst og ég held satt að segja að sagan sé nokkuð lengri en verið er að fjalla um strangt til tekið í skýrslunni. Það er á síðari hluta síðustu aldar, upp úr 1990, sem byrjað er að draga mjög verulega úr félagslega húsnæðiskerfinu á Íslandi. Það er nú einu sinni þannig, bæði á Íslandi og eins á öðrum Norðurlöndum og flestum þeim ríkjum sem við berum okkur saman við, að það er alltaf talsvert stór hluti samfélagsins sem er með lágar tekjur eða meðaltekjur og litlar eignir, sem er einfaldlega ekki í stöðu til að afla sér húsnæðis á fullum markaðskjörum, ræður ekki við fulla markaðsleigu, ræður ekki við að kaupa með lánsfé með verðtryggingu og mörg prósent raunvöxtum þar ofan á. Þess vegna höfum við félagsleg húsnæðiskerfi, við höfum félagslegar leiguíbúðir, við höfum félagslegt eignaíbúðakerfi, kaupleigukerfi, eða hvað það nú er, til að mæta þörfum þessa fólks.

Upp úr 1990 hurfu menn frá því að veita lán með 1% vöxtum til félagslegra leiguíbúða og byrjuðu að hækka vextina. Ég held að þeir hafi fyrst farið í 2% og síðan í 3,5% og hvort þeir enduðu ekki í 4,5%. Það jafngildir 100% hækkun á rekstrarkostnaði leiguíbúða og gerði það náttúrlega að verkum að allt framboð af ódýru félagslegu leiguhúsnæði dróst mjög saman.

Sömuleiðis var byrjað að hækka vextina á lánum til félagslegra eignaríbúða og á endanum var verkamannabústaðakerfið beinlínis lagt niður. Þetta orsakar það síðan að í kringum aldamótin byrjar að skapast það ástand í samfélaginu að æ fleiri eiga erfitt með að koma sér upp húsnæði, þaki yfir höfuðið. Og þegar Framsóknarflokkurinn fer út að spyrja fólk í því sem kallað eru fókusgrúppur og er ákveðin aðferðafræði til að kanna hvað brennur helst á fólki, kemur út úr þeirri vinnu að það sem fjölmargir benda á er að unga fólkið eigi erfitt með að komast að heiman frá foreldrum sínum — og það var skemmtilega myndskreytt í auglýsingum Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2003 — og að það vanti leiðir fyrir fólk til þess að eignast sitt eigið húsnæði. Í stað þess að bregðast við á þann hátt sem nauðsynlegt hefði verið og hefja á ný að leggja fjármuni í félagslegt húsnæðiskerfi og skapa viðráðanleg kjör, bæði fyrir fólk til að leigja öruggt húsnæði og eignast öruggt húsnæði, var ákveðið í þinginu með aðkomu margra stjórnmálaflokka, og þátttöku minni meðal annars, að leysa þann vanda með því að bjóða þessu fólki mikið lánsfé til mjög langs tíma með mjög háu veðhlutfalli en allt saman verðtryggt og á hæstu raunvöxtum sem þekkjast í okkar heimshluta.

Það var auðvitað, er hægt að segja núna, algerlega fyrirsjáanlegt að þetta var bara slys sem beið eftir því að gerast, vegna þess að verið var að lána í 40 ára lánum, svokölluðum Íslandslánum, mjög stóran hluta af kaupverði eigna á hærri vöxtum en þekkjast nokkurs staðar í kringum okkur, fólki sem einfaldlega hafði ekki kaupgetu til þess að standa undir því til lengri tíma eða þola nokkur áföll á íbúðamarkaði. Sama gilti um leigufélögin, þau kjör sem þeim var lánað á voru þannig að það mátti vera nokkuð ljóst að til lengri tíma litið mundu þau dæmi heldur ekki ganga upp. Við það bættist síðan það að þetta inngrip stjórnvalda herti mjög alla samkeppni á fjármálamarkaði og jók mjög framboð annarra lánastofnana á lánsfé. Það leiddi til mikillar verðsprengingar á íbúðamarkaði og til þess að íslensk heimili urðu á örfáum árum einhver skuldsettustu heimili í heiminum. Heil kynslóð varð fyrir því að ráðast í íbúðarkaup á þessum versta tíma þegar verð var í hámarki, þegar það í þokkabót var með kaupmátt sem átti ekki eftir að halda eftir efnahagshrunið og átti eftir að minnka, og rétt fyrir mikið veðbólguskot tók mjög há lán til þess að kaupa sér húsnæði.

Af þessu hlýst þetta mikla tjón. Ég held að það sem við þurfum að læra af því sé að varast þá hugmynd að fólki sé mikill greiði gerður með miklu framboði af lánsfé, því að staðreyndin er sú að húsnæðisverð hefur tilhneigingu til þess að hækka með miklu framboði af lánsfé. Við þurfum líka að hugsa hvernig við tökum þetta mál inn í framtíðina og í því sambandi hef ég vakið athygli á því í umræðunni í dag að það fólk sem enn situr með lánin hjá Íbúðalánasjóði hefur fengið minni úrlausn sinna mála en þeir sem tóku íbúðalán hjá fjármálastofnunum, (Forseti hringir.) hjá bönkunum í landinu. Ég held að það sé ekki viðunandi fyrir þingið að skilja þannig við eftirstöðvar hrunsins og mikilvægt sé að rétta hlut þeirra sem eru með lán sín hjá Íbúðalánasjóði að þessu leyti.