143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það fram út af orðum hv. þingmanns um að ekki eigi að fara í fólkið, að þeir einstaklingar, þær stofnanir og þau fyrirtæki sem ráðist er að í skýrslunni, oft og tíðum með ómaklegum og óvönduðum hætti, fengu ekki tækifæri til þess að verja sig. Það er þess vegna kannski enn þá brýnna að bera þetta fram hér vegna þess að þeir aðilar fengu ekki tækifæri (KaJúl: Fóru þeir ekki í nefndirnar, skrifuðu greinargerðir?) til þess að bera hönd (Gripið fram í.)fyrir höfuð sér. Þeir fengu ekki aðgang að skýrsluhöfundum. Þeir fengu ekki möguleika á því að bera fram andmæli. Þeir fengu ekki möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það hefði verið betra fyrir skýrsluhöfunda ef þeir hefðu haft manndóm í sér til þess að bjóða upp á það vegna þess að þá hefði skýrslan orðið trúverðugri og koma hefði mátt í veg fyrir mikið af rangfærslum og missögnum og ósannindum sem er að finna í skýrslunni og gera hana því miður ótrúverðuga. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er náttúrlega til skaða ef við fáum ekki gott fólk til þess að skrifa hér skýrslur.

En það er líka áhyggjuefni ef við fáum ekki skýrslur hér í þingið sem standa undir því að vera nauðsynlegir leiðarvísir fyrir okkur í kjölfar þeirra atburða sem orðið hafa. Það er það sem við þurfum að geta treyst á, að fá hér inn skýrslur sem orðið geta okkur til leiðbeiningar inn í framtíðina til þess að koma í veg fyrir að aðrir eins atburðir komi ekki fyrir aftur. Ég held við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður.

En þessi skýrsla rýrir því miður bara sjálfa sig og kemur þess vegna í veg fyrir eða dregur úr líkindum á því að geta verið hinn nauðsynlegi leiðarvísir sem við þurfum að hafa.