143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu í dag sem mér finnst að mörgu leyti hafa verið hófstillt og ágæt. Við höfum flest reynt að vanda okkur eftir því sem kostur hefur verið.

Hér hefur verið talað um að kostnaður við þessa skýrslu hafi farið mjög úr böndunum. Ég er sammála því. Hins vegar má endurtaka dæmið sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason tók um kostnaðinn, hann er ekki mjög mikill ef maður ber saman við tapið sem varð af þessari starfsemi. Ég nefni það í framhjáhlaupi. Ég er sammála því að það þarf að huga að kostnaði við rannsóknarskýrslur, ég tel sannast að segja að Alþingi og yfirstjórn þingsins hefðu hugsanlega haft meiri möguleika til að gera það en hún nýtti sér.

Hér hefur líka verið gagnrýnt að menn hafi ekki haft andmælarétt. Mér skilst að ein ástæðan fyrir því að skýrslunni um sparisjóðina seinki núna sé einmitt sú að verið sé að veita andmælarétt því fólki sem þar er fjallað um. Þetta heyri ég en hef svo sem ekki fengið staðfest. Ég tel að það sé þó svo.

Við tökum þeirri gagnrýni sem kemur fram á starfsemina, starfsmenn og stjórnarmenn auðsjáanlega mjög misjafnlega. Sumir segja að bornar séu sakir á fólk en ég mótmæli því. Það er þó hárrétt að þarna er þörf gagnrýni á störf ýmissa manna. Auðvitað væri betra að þeir hefðu fengið andmælarétt hjá rannsóknarnefndinni. Við skulum líka gæta þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, lagði einmitt mikla áherslu á að þetta fólk kæmi fyrir nefndina og hér eru fylgiskjöl frá því. Mér finnst ekki mega gleyma því að í störfum nefndarinnar var reynt að bæta fyrir þennan skavanka.

Þeir sem gagnrýna þetta mest koma hér og, virðulegi forseti, ég ætla að leyfa mér að segja að þeir hjóli í þá sem sömdu þessa miklu skýrslu. Ég er mjög óánægð með að það skuli gert á þennan hátt.

Það er gefið í skyn að það fólk sem vann þessa skýrslu hafi gengið erinda einhverra. Þetta fólk var valið af skrifstofu þingsins. Skrifstofustjóri þingsins og starfsmenn þess voru hér heilt sumar að tala við fólk, vönduðu sig eins og þeir mögulega gátu og pössuðu upp á að enginn gengi erinda nokkurs. Þess vegna finnst mér þessi ummæli mjög slæm í lok þessa dags sem hefur gengið vel og fólk hefur vandað sig.

Við lítum misjafnlega á þetta. Við erum þó öll sammála um að ýmislegt megi af þessu læra. Ég vona að við séum öll sammála því. Við erum að einhverju leyti ósammála um hvernig tekið er á einhverjum málum, það er alveg rétt, en það er líka eðlilegt að við séum ekki sammála um alla hluti. Það er hins vegar óeðlilegt, virðulegi forseti, að hjóla í það fólk sem við höfum fengið til þessara starfa. Það er óeðlilegt og ég mótmæli því.