143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, og kemur það frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Samstaða var um það í nefndinni að nefndin í heild mundi flytja málið og ég var valinn framsögumaður þess.

Í frumvarpinu felst að lagt er til að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar sem reiknast frá 16. júní 2010 verði átta ár frá því tímamarki.

Í lögum nr. 151/2010, sem samþykkt voru á Alþingi 18. desember 2010, var að finna ákvæði um uppgjör gengistryggðra lána til samræmis við dóma sem Hæstiréttur hafði kveðið upp úr um gildi gengistryggðra lána og endurútreikning þeirra 16. júní 2010 og 16. september 2010. Þau lög, nr. 151/2010, hafa oft í almennri umræðu verið við mig kennd þó að ég hafi nú kosið að afþakka heiðurinn af því einn að hafa sett þau, enda Alþingi ábyrgt fyrir löggjöfinni í því tilviki sem öðrum. Í þeim lögum var að finna fjölbreytt ákvæði um endurútreikning lána til að greiða fyrir endurgreiðslum vegna ólögmætra gengislána, þar á meðal ákvæði um hvernig reikna bæri kröfur, hversu langir tímafrestir væru veittir og jafnframt hver ætti að njóta endurgreiðslunnar til þess að tryggja að þeir sem fyrir raunverulegu tjóni hefðu orðið mundu njóta endurgreiðslna frá lánveitendum.

Meðal þess sem þurfti að gera var að setja í lögin heimildarákvæði til að opna mál sem þegar hafði verið lokið. Fólk hafði þurft að þola það að gjaldþrotaskiptum hafði kannski verið lokið hjá því vegna þess að það hafði ekki getað staðið í skilum með gengistryggð lán. Þannig var opnað fyrir möguleika á að opna aftur ýmis slík lokuð mál og til þess þurfti skýra lagaheimild. Og það þurfti líka að kveða á um það með hvaða hætti kröfur, sem með þessum hætti höfðu stofnast um endurgreiðslu vegna ólögmætra gengistryggðra lána, mundu fyrnast. Í lögum nr. 151/2010 var að finna ákvæði til bráðabirgða XIV sem kvað á um að fyrningarfrestur miðaðist við 16. júní 2010. Það tímamark var eðlilega valið vegna þess að þá féll fyrst hæstaréttardómur um ólögmæti gengistryggðra lána og því eðlilegt að líta svo á að endurkrafan stofnaðist við það tímamark.

Samkvæmt almennum réttarreglum í landinu gildir fjögurra ára fyrningarfrestur um kröfur, almennar kröfur, nema sérstaklega sé á annan veg mælt um í lögum. Nú líður því að lokum fjögurra ára fyrningarfrests vegna þess að ekki voru í bráðabirgðaákvæðinu nein sérákvæði um fyrningarfrest. Flest héldum við líklega þá að fjögur ár væru yfrið nægur tími til að leiða til lykta dómsmál vegna ólögmætrar gengistryggingar. Það fór hins vegar á annan veg og niðurstöður urðu mjög misvísandi frá Hæstarétti og ákveðin áherslubreyting af hálfu réttarins með dómi sem kveðinn var upp 15. febrúar 2012, sem kallaði á að fyrri fordæmi urðu ekki jafn fordæmisgefandi og talið hafði verið og efna þurfti til miklu fleiri dómsmála til að fá efnislega niðurstöðu í nákvæmlega umfang þess réttar sem skuldarar gætu átt á grundvelli ólögmætra gengislána.

Því miður sér ekki fyrir endann á þeim málaferlum og hætt er við að skuldarar, sem þó hafa ekki með einhverjum ábyrgðarlausum hætti látið hjá líða að halda uppi kröfum sínum, þvert á móti, sem jafnvel hafa gert reka að því að gera kröfur hafi ekki fengið fullnægjandi niðurstöðu innan fjögurra ára tímamarks, sem rennur þá út 16. júní á þessu ári.

Einnig er ljóst að fjármálafyrirtæki hafa í ákveðnum tilvikum hafnað fordæmisgildi dóma sem þegar hafa fallið og kallað eftir að fleiri dómar falli. Það læðist að manni sá grunur að það sé ekki einungis gert á lögfræðilegum forsendum heldur líka til að tefja mál fram yfir frestinn 16. júní nk. og til að koma fyrirtækjunum undan því að þurfa að endurgreiða stóran hluta tiltekinna lánaflokka.

Það er því niðurstaða okkar eftir ábendingar frá sérstaklega Samtökum iðnaðarins að miklu máli skipti að skapa ríkara svigrúm. Svokallaðir fjármögnunarleigusamningar eru nú fyrir dómstólum og ekki líkur á að fullnægjandi niðurstaða fáist í fordæmisgefandi málum að því leyti fyrir 16. júní nk. eða í það minnsta er það óvíst. Því var það niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að flytja frumvarp sem kvæði á um sérstakan fyrningarfrest í þessu tiltekna tilviki og hann mundi ákveðast átta ár. Verði frumvarpið að lögum mun því vera hægt að setja fram kröfur vegna ólögmætra gengislánasamninga fram til 16. júní 2018.

Það hefur auðvitað verið rætt í nefndinni hvort það gætu verið einhver sjónarmið sem mæltu gegn því að fara þessa leið. Niðurstaða okkar hefur verið sú að svo sé ekki. Hér er fyrst og fremst verið að tryggja að endurkröfuréttur, sem er að fyrnast, á hendur lánafyrirtækjunum viðhaldist. Fyrirtækin hafa væntanlega öll nú þegar gert kröfur á grundvelli þess sem þau geta mögulega gert og ljóst að fyrir stórar atvinnugreinar, sem til dæmis hafa reitt sig á fjármögnunarleigusamninga, er þetta mikið hagsmunamál.

Af dómaframkvæmd Hæstaréttar — ég vil sérstaklega vekja athygli á því að við könnuðum það sérstaklega — má ráða að mögulegt sé að lengja fyrningarfrest með þessum hætti. Það er meginregla að nýjum lögum verður beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í dóm Hæstaréttar frá 2008 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms þess efnis að ef fyrningarfrestur væri lengdur með lögum yrði þeim lögum beitt um fyrningu sem hafin væri en ekki lokið við gildistöku nýrra laga.

Nú háttar sannanlega þannig til að fyrningin er hafin en henni er ekki lokið, svo fremi lögin taki gildi fyrir 16. júní nk. Það vekur athygli í þessu samhengi að lenging fyrningarfrestsins í þessu tilviki var íþyngjandi fyrir almennan borgara, meðlagsgreiðanda, einstakling, en ívilnandi fyrir kröfuhafann sem var opinber stofnun. Af þessu verður ekki ráðið að neinar lögfræðilegar hömlur séu á því að samþykkja lengingu fyrningarfrestsins með þeim hætti sem hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég gera það að tillögu minni að málinu verði vísað til nefndarinnar, jafnvel þótt hún flytji það sjálf. Við höfum rætt það í nefndinni að æskilegt geti verið að kalla til fundar við nefndina hagsmunaðila og fara með þeim yfir frumvarpið, en ekki hefur sérstaklega verið gert ráð fyrir því að nefndin geri nefndarálit, enda svo sem ekki þörf á því þegar nefndin sjálf flytur frumvarpið. En full ástæða er til að funda með hagsmunaaðilum og kynna þeim efni frumvarpsins og óska athugasemda.