143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

viðskiptaumhverfi landbúnaðarafurða.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það er mikilvægt að opna markað fyrir íslenskar landbúnaðarvörur. Það er auðvitað það sem við eigum að vera að stefna að. En umgjörðin sem ríkisstjórnin stendur vörð um hjálpar ekki í því efni.

Hæstv. ráðherra vitnaði til fordæmis frá landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar. Það er alveg rétt, þá voru stigin mikilvæg skref í átt til þess að auka milliríkjaviðskipti, afnema tollverndina, vegna þess að hún er vond í sjálfu sér, og íslensk garðyrkja naut góðs af og íslenskir garðyrkjubændur.

Vandinn er sá að núverandi ríkisstjórn er mun afturhaldssamari í þessum efnum en Guðni Ágústsson var á sínum tíma og við söknum framsýni hans í þessum efnum þegar við sjáum hinn stirðnaða Sjálfstæðisflokk (Gripið fram í.) í þessum málum núna. Vandinn er bara sá að það er ekki verið að stíga nein af þessum skrefum, virðulegi forseti, það er ekki verið að sækja fram. (Gripið fram í.) Hvar er þá stefnan? Má ég skilja hæstv. fjármálaráðherra þannig að hann vilji marka þá stefnu að opna markaði, að Ísland setji sér sjálfstæð markmið um að fella niður (Forseti hringir.) tolla og sæki síðan á önnur lönd um niðurfellingu hjá þeim? Hver eru þá efnisrökin (Forseti hringir.) fyrir því að setja ofurtolla á(Forseti hringir.) osta sem ekki eru framleiddir í landinu? (Forseti hringir.) Hver eru rökin? Er bara verið að níðast (Forseti hringir.) á neytendum?