143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er bara allt önnur ræða en flutt var í aðdraganda kosninga. (Gripið fram í.) Spurning mín lýtur að orðum og efndum. Hæstv. forsætisráðherra var mjög brattur í kosningabaráttunni og talaði um að svigrúm mundi myndast þegar kröfuhafarnir þyrftu að semja um afslátt af kröfum sínum. Það var aldrei hægt að skilja það öðruvísi en svo að það þyrfti aðkomu ríkisvaldsins að því einhvern veginn. Talað var um að semja við hrægamma með haglabyssu, svo notað sé líkingamál, og var þá væntanlega átt við höftin. Ég held að almennt hafi fólk skilið þetta þannig. Ekki var talað um 100 milljarða í skattlagningu heldur var talað um nokkur hundruð milljarða sem myndast mundu með slíku svigrúmi. Peningum var veifað framan í fólk í síðustu kosningabaráttu. Ég vil einfaldlega fá það á hreint hvort menn hafi verið að veifa þessum peningum gegn betri vitund, vegna þess að sú ræða sem hæstv. forsætisráðherra flutti hér áðan, um að þetta væri flókið og (Forseti hringir.) það væri kannski hægt að ná samt 20–100 milljörðum með skattlagningu, var ekki svona í kosningabaráttunni, sú ræða var allt öðruvísi.