143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skuldaleiðrétting og lyklafrumvarp.

[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag er síðasti framlagningardagur þingmála. Hér í þinginu bólar ekkert á afnámi verðtryggingar eða lyklafrumvarpinu en alla vega einn þingmaður Framsóknarflokksins leggur hins vegar fram frumvarp um lögleiðingu fjárhættuspila og er ástæða til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort lögleiðing fjárhættuspila eigi af hálfu Framsóknarflokksins að koma í staðinn fyrir afnám verðtryggingar og lyklafrumvarpið.

Ég ítreka spurninguna um lyklafrumvarpið sem forsætisráðherra vísaði hér síðast á innanríkisráðherra. Hann hefur aldrei gert grein fyrir stöðu málsins hér í þinginu. Hæstv. forsætisráðherra verður að svara því sjálfur hvers vegna lykilkosningaloforð Framsóknarflokksins er ekki komið á borð þingmanna á síðasta degi.

Það er viðeigandi að hæstv. forsætisráðherra mælir á morgun, 1. apríl, fyrir stærsta kosningamáli sínu. Það er viðeigandi vegna þess að þar er satt að segja fremur lítið um efndir, 72 milljarðar af skattfé. Nú kannast hæstv. forsætisráðherra ekkert við að hafa talað um 300 milljarða og hrægamma. Ég spyr þá hæstv. forsætisráðherra: Kannast hann við að hafa talað um eða heyrt nefnda töluna 20% eða allt að 20%? Skuldaleiðrétting upp á 72 milljarða eru 3,7% af skuldum heimilanna, 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna, 1/4 af því sem fyrirheit voru gefin um. Kannast hæstv. forsætisráðherra við að hafa lofað að laga forsendubrestinn hjá íslenskum heimilum?

Frumvarpið sem kynnt verður 1. apríl boðar 1.100 þús. kr. að meðaltali á þann helming heimila í landinu sem skuldar. Var forsendubrestur hinna skuldsettu heimila á Íslandi 1.100 þús. kr. að meðaltali? Getur hæstv. forsætisráðherra svarað því? Kannast hæstv. forsætisráðherra við að hafa eftir kosningar nefnt hér í ræðustólnum að leiðrétta skyldi verðbólgu umfram 4% — umfram 4% eftir kosningar, þá orðinn forsætisráðherra? Af hverju er þá nú verið að vinna með tæplega 5% yfir mörg ár? Getur hæstv. forsætisráðherra svarað því?