143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[15:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni kærlega fyrir að hefja þessa umræðu um leigumarkaðinn og mögulegar leiðir til að efla hann. Við hv. þingmaður erum mjög sammála um mikilvægi þess að við eflum leigumarkaðinn á Íslandi og ég hef lagt áherslu á það við vinnu við mótun á framtíðarskipan húsnæðismála að við hugum að öllum heimilum, ekki bara sumum, að við tryggjum fólki val og öryggi óháð því hvað það velur. Þau búsetuform sem við erum að vinna með eru leiguhúsnæði, séreign þar sem fólk á húsnæði sitt og svo búseturéttur þar sem fólk kaupir sér ákveðinn rétt til að búa í húsnæði.

Þegar verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála var skipuð í framhaldi af ályktun Alþingis var henni að sjálfsögðu þar með falið að skoða hvernig unnt væri að tryggja virkan leigumarkað á Íslandi og hvert hlutverk stjórnvalda ætti að vera við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Eins og hv. þingmaður fór í gegnum í ræðu sinni þá hefur þetta verið mjög mikil vinna. Sú sem hér stendur þarf nú að axla ábyrgðina á því að ákveðnu leyti því að ég tók raunar samráðið og stækkaði vinnuna umfram það sem Alþingi hafði ályktað um vegna þess að ég taldi að hér væri um svo stórt og svo mikilvægt verkefni að nauðsynlegt væri að tryggja álit sem flestra. Því var tekin ákvörðun um að skipa sérstakan samvinnuhóp um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem sæti eiga fulltrúar 32 aðila sem hafa einhverra hagsmuna að gæta eða hafa áhuga á því að vel verði staðið að uppbyggingu framtíðarskipulags húsnæðismála. Ég held að við öll sem hér sitjum gerum okkur mjög vel grein fyrir því hversu dýrkeypt það getur verið fyrir okkur að taka rangar ákvarðanir varðandi uppbyggingu húsnæðismarkaðarins á Íslandi.

Það er það sem verkefnisstjórnin hefur verið að gera. Hún hefur verið að vanda vinnu sína. Samvinnuhópurinn hefur fundað mjög oft og skilað af sér tillögum sínum og nú síðast skiluðu tvö ráðgjafarfyrirtæki, sem verkefnisstjórnin fékk til að vinna fyrir sig, af sér skýrslu og öll þau gögn hafa verið birt á vef velferðarráðuneytisins þar sem fólk getur kynnt sér þau og hvet ég fólk til að gera það.

Ég vil líka bjóða upp á það hér að fulltrúar, formaður samvinnuhópsins og ráðgjafarnir komi og hitti einstaka þingflokka og fari í gegnum þær tillögur og þær hugmyndir sem nú eru á borðinu og heyri skoðanir manna, vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við reynum að ná eins víðtækri sátt um framtíðarskipulag húsnæðismála og hægt er.

Hér hefur verið nefnt, og það er mjög mikilvægt, að nú liggja hugmyndir og tillögur á borði verkefnisstjórnarinnar sem hún er að vinna úr þannig að enn er hægt að koma að þeirri vinnu og koma með ábendingar. Nefndir hafa verið möguleikar á því frá samvinnuhópnum, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi hér, að ríki og sveitarfélög útvegi lóðir og að sveitarfélög fái heimildir til að fella niður ýmis gjöld fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða eða fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru með langtímasjónarmið að markmiði. Talað er um að veita ákveðnar ívilnanir, stofnstyrki, og um mikilvægi þess að endurskoða lög sem lúta að rekstrarumhverfi húsnæðisfélaga með tilliti til réttinda og skyldna leigjenda og leigusala. Rætt hefur verið um mikilvægi þess og er það í samræmi við tillögur sem komu frá flokki hv. þingmanns, Samfylkingunni um að breyta skattlagningu á leigutekjum. Ég held að það væri mjög áhugavert að skoða það, sérstaklega ef við horfum á stöðuna hér á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að breyta því hvernig við höfum skattlagt leigutekjur og hvatt fólk til þess að leigja til lengri tíma.

Rætt hefur verið um endurskoðun á byggingarreglugerð og vil ég minna á að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú þegar lagt fram breytingar á byggingarreglugerðinni þar sem hægt á að vera að byggja minna og sveigjanlegra húsnæði. Ég hef sjálf undirritað nýja leigufélagsreglugerð og hefur gengið ágætlega að lána út á grundvelli hennar hjá Íbúðalánasjóði. Að mínu mati er mjög mikilvægur þáttur í þessu máli að draga úr taprekstri Íbúðalánasjóðs svo við getum horft til framtíðar. Gífurlegir fjármunir hafa farið í Íbúðalánasjóð og hefur þegar verið gripið til aðhaldsaðgerða til að draga úr þeim taprekstri. (Forseti hringir.) Ég vil líka benda á að eins og hv. þingmaður kom hér inn (Forseti hringir.) á er mikilvægt að koma þeim íbúðum sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs í útleigu og t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) eru örfáar íbúðir sem eru í leiguhæfu ástandi sem ekki eru í útleigu.