143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[15:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mjög svo þarfa og brýna máli og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf hér. Það eru þó mjög margar spurningar sem við hljótum að velta upp. Ég fagna því að hæstv. ráðherra boði það hér að hún muni efna til samráðs við fulltrúa stjórnmálaflokkanna um hvernig farið verði með tillögur í þeim skýrslum sem nú liggja fyrir því að þær vekja ýmsar spurningar.

Í fyrsta lagi tel ég að það hljóti að vekja ákveðnar spurningar hvernig við nálgumst leigumarkaðinn. Þar eru ýmsar leiðir til nefndar og hér hafa verið nefnd einhvers konar félög sem ekki eru þó starfandi í hagnaðarskyni, leigufélög. Mér finnst líka að við hljótum að velta upp öðrum spurningum sem lúta að því hvernig við getum haldið niðri leiguverði því að staðan núna er ekki góð með annars vegar leiguhúsnæði í félagslegu kerfi þar sem mjög erfitt er að komast inn og uppfylla þau skilyrði sem sett eru til að komast í félagslegt leiguhúsnæði og það er ekki einu sinni sérstaklega ódýrt. Hins vegar er hinn almenni leigumarkaður en þar hefur leiguverð, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, farið upp úr öllu valdi fyrir utan óöryggi. Ég hlýt að spyrja: Er ekki eðlilegt að stjórnvöld velti fyrir sér hvað þau geti gert annað en bara að stuðla að lánsfjármagni til félagslegra leigufélaga? Í Svíþjóð er starfandi leiguverðsnefnd sem setur hámark á leiguverð og það er hluti af því að hafa ákveðna stýringu á húsnæðismarkaði. Það er hugmynd sem mætti velta fyrir sér.

Síðan velti ég fyrir mér hugmyndum um húsnæðislánafélögin. Ég vil bara ítreka að ef við horfum fram á kerfi með nokkur húsnæðislánafélög þar sem teiknuð er sú sviðsmynd að þau verði í eigu viðskiptabankanna þá hverfum við frá félagslega íbúðalánakerfinu. Þó að margt hafi verið gagnrýnisvert í starfsemi Íbúðalánasjóðs hér á árum áður, ekki hvað síst hvað varðar lán til verktaka og óhagkvæmar fjárfestingar þá hljótum við að velta upp spurningunni: Hvað er félagslegt kerfi? Er það félagslegt að færa þetta allt yfir í viðskiptabankana? Mér er það til efs.

Að lokum varðandi byggingarreglugerð þá er líka mikilvægt að fram komi að samkvæmt byggingarreglugerðinni (Forseti hringir.) er hægt að byggja allt niður í 26 fermetra íbúðir (Forseti hringir.) og við megum ekki gefa of mikinn afslátt af aðgengismálum fyrir fatlaða (Forseti hringir.) þegar við ræðum byggingarreglugerðina.