143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[15:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afskaplega mikilvægan málaflokk sem eru húsnæðismálin og húsnæðisvandann. Það er ágætt í kjölfar þess að við höfum nýlega rætt þessi mál og þá einkum sérstaka skýrslu um afleiðingarnar af því þegar menn hugsa ekki fram í tímann og gera ekki skynsamlegar áætlanir.

Við erum hér með ríkisbanka, húsnæðisbanka sem kostað hefur skattgreiðendur 40 þús. millj. kr. frá bankahruni. Ef ekki kemur til stefnubreyting þá er um að ræða 35–70 þús. millj. kr. kostnað í viðbót. Þetta er nátengt því að hér var rekin húsnæðisstefna sem hvatti fólk til að skuldsetja sig í stað þess að hjálpa því til að eignast húsnæði. Ég vona því að hv. þingmenn taki mið af þessum staðreyndum, taki mið af því sem gerðist í fortíðinni því að ef við lærum ekki af henni verður þetta enn þá dýrara en raunin er nú því að þá er líklegt að við gerum sömu mistökin aftur. Þetta snýr ekki bara að hv. þingi því að sveitarfélög, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, verða svo sannarlega að koma með lausnir og sérstaklega þarf að vera tryggt að hér sé framboð á lóðum. Það er nokkuð sem oft hefur vantað upp á, sérstaklega í Reykjavík, og lóðaskortsstefnan sem hér var rekin undir forustu Samfylkingarinnar olli gríðarlegum vanda á sínum tíma. Sem betur fer gripu önnur sveitarfélög inn í og komu með sitt framboð. Ef það hefði ekki verið gert þá hefði orðið hér algjör óðaverðbólga á sínum tíma.

Núna virðumst við vera komin í svipaða stöðu og það er alveg hárrétt sem komið hefur fram hjá hv. þingmanni að leiguverð er mjög hátt. (Forseti hringir.) Það stafar einfaldlega af því að hér er skortur á húsnæði og úr því þurfum við að bæta.