143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:10]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Við svo sem vitum öll að staðan á leigumarkaðnum er mjög slæm og í rauninni alveg ólíðandi. Nú liggur fyrir að hæstv. ráðherra mun kynna einhverjar úrbætur. Það er mjög mikilvægt. Ég treysti hæstv. velferðarráðherra mjög vel í þessum málaflokki og treysti því að við öll, hvar í flokki sem við sitjum, vinnum saman að þessu máli.

En það er rétt sem segir í grein í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 16. janúar núna í ár, að á síðustu 15 árum hafa verið skipaðar 39 nefndir til að fjalla um stöðuna á húsnæðismarkaði. Það vantar ekkert upp á skýrslur og nefndir og hópa og þess háttar. Það sem vantar er að við sameinumst um einhverja stefnumótun og fylgjum henni þvert á flokka og að við byrjum ekki alltaf upp á nýtt þegar ný ríkisstjórn tekur við. Það finnst mér mjög mikilvægt. Þess vegna treysti ég því að það sé gott mál sem hæstv. ráðherra kemur með hingað og að við náum að vinna af einhug að því saman.

Ég hef samt svolitlar áhyggjur af því að við séum að ýta áfram undir séreignarstefnuna, t.d. með þessum hugmyndum um að nýta séreignarsparnaðinn í að safna sér fyrir íbúð. Af hverju getur fólk ekki nýtt séreignarsparnaðinn í að safna sér sjóði sem það getur nýtt til að borga trygginguna eða húsgögnin sem það þarf í leiguíbúðina sína eða hvað annað? Ég set spurningarmerki við það. Mér finnst við vera að ýta enn undir séreignarstefnuna og ég held við ættum að hverfa af þeirri braut vegna þess að það er fullt af fólki sem annaðhvort getur ekki eða vill ekki eiga húsnæði. Það á að vera til sanngjarn leigumarkaður fyrir það fólk rétt eins og í flestum löndum sem við berum okkur saman við.