143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá góðu umræðu sem hér hefur orðið. Þetta er alvarlegt vandamál. Sveitarfélögin eru viljug til þess að taka á af krafti, af myndugleik, sérstaklega hér í Reykjavík og í Hafnarfirði [Hlátur í þingsal.] og það er mikilvægt að taka í þá útréttu hönd; ríkið verður að bregðast við.

Ég þakka góð orð ráðherra, en ég hef áhyggjur af því að ekki gerist nógu mikið í þessum málaflokki og það kostar að gera ekki eitthvað, alveg eins og við sjáum að ef menn komast nú almennt að þeirri niðurstöðu að tillaga okkar frá í haust um að lækka þurfi tekjuskatt á leigutekjur sé rétt. En af hverju var þá ekki orðið við því í haust? Þar er eitt ár farið til spillis. Við aukum ekki framboð á leiguhúsnæði eða minnkum vandann á leigumarkaðnum í heilt ár. Það tækifæri er farið vegna þess að menn gripu ekki nógu hratt inn í. Það skiptir þess vegna máli að taka á af miklum krafti.

Einn ágætur þingmaður sagði hér áðan að það skipti máli að við næðum pólitískri samstöðu um þessi mál, en þá þurfa sjónarmiðin líka að vera þau sömu. Ég hef áhyggjur af því þegar ég hlusta á talsmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir tala hér gegn hækkun húsaleigubóta. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er farinn að hafa þungar áhyggjur af verkaskiptingunni í ríkisstjórninni ef það er þannig að framsóknarmenn hafa tekið að sér að reka landbúnaðarstefnuna en sjálfstæðismenn hafa tekið að sér að reka húsnæðisstefnuna. Það er áhyggjuefni fyrir fólkið í þessu landi.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að hæstv. félagsmálaráðherra segi það skýrt hér hvort hún styður hugmyndir um eitt kerfi húsnæðisbóta og stórfellda hækkun húsaleigubóta til að ná því markmiði. Við munum styðja hana ef hún treystir sér núna við fjárlagagerð til þess að fara fram á stórauknar húsaleigubætur fyrir næsta ár. Styður ráðherra allar tillögur allra sérfræðinga sem kallaðir hafa verið til um eitt kerfi húsnæðisbóta (Forseti hringir.) sem forsendu fyrir virkum leigumarkaði?