143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga umræðu við hæstv. ráðherra og hv. þingmenn um skóla án aðgreiningar og valfrelsi foreldra þegar kemur að þeim skóla, og við erum að tala um skólann á öllum stigum. Við erum að tala um leikskólastigið, grunnskólastigið og framhaldsskólastigið.

Það voru foreldrar sem áttu börn með sértækar fatlanir sem óskuðu eftir því að börn þeirra gætu gengið í hverfisskólann sinn, að skóli án aðgreiningar yrði að veruleika. Það er sú hugmyndafræði sem að baki liggur því og eðlileg ósk. Og þá er spurningin: Hvernig mætti skólasamfélagið þeirri ósk?

Ég er þeirrar skoðunar að skólasamfélagið hafi mætt þessu að hluta en aldeilis ekki að öllu leyti og valfrelsi foreldra sé í raun sáralítið. Mér finnst líka að við ættum að velta upp þeirri spurningu, virðulegur forseti, hvort hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar rýmist innan ríkjandi hugmynda um nám, kennslu og skipulag.

Tökum grunnskólann sem dæmi sem er á hendi sveitarfélaga, allur rekstur og ábyrgð er á hendi sveitarfélaga, en engu að síður er allt innihald náms og skipulag niðurnjörvað í miðstýrða námskrá og tímasetningu ráðuneytis. Hverjir koma að námi og skipulagi skóla án aðgreiningar? Koma foreldrar þar að með þær hugmyndir sem þeir telja að eigi að ráða ríkjum fyrir börn sem eru með sértækar fatlanir á einhvern hátt?

Það kann að vera að nemandi sem er líkamlega fatlaður geti tekið þátt í öllu skólastarfi eða næstum því öllu skólastarfi. Þó að hann geti ekki hlaupið um ganga hefur hann greind og hæfni til þess að nema það sem fram fer í skólanum eins og skólinn er í dag. En hefur nemandi sem hefur einhverja þroskahömlun og jafnvel greindarskerðingu vegna fötlunar sömu möguleika? Er skólinn að koma til móts við óskir hans? Hvaða val hafa foreldrar í raun, foreldrar slíkra barna sem eru einstök hvert á sinn hátt, varðandi nám og skólagöngu barna sinna? Eiga foreldrar að hafa val? Og ef þeir eiga að hafa val, um hvað eiga þeir að hafa val? Eiga þeir að geta haft val og áhrif á skólastarfið sjálft og námið innan skólans? Eiga þeir kannski að geta haft það val að segja: Barninu mínu er betur borgið í sérskóla þar sem það getur verið fremst meðal jafningja, sem það getur ekki verið í hinum hefðbundna grunnskóla þó að hann sé án aðgreiningar?

Ég þekki það, virðulegur forseti, sem fyrrverandi kennari og skólastjóri að skóli án aðgreiningar er samt skóli aðgreiningar vegna þess að nemandi sem ekki fellur að norminu er í sérkennslu, jafnvel tekinn út úr sínum hópi, sínum bekk í fleiri greinum en hann er með hópnum sínum í. Aðgreiningin er því innan skólans þó að við tölum um skóla án aðgreiningar. Vegna þess að skóli án aðgreiningar er réttur barnsins til að sækja nám í hverfisskóla en aðgreiningin er innan skólans vegna þess að nemendur eru misjafnir eins og þeir eru margir.

Mér finnst umhugsunarvert, virðulegur forseti, og mér finnst það þess virði að við ræðum hvert er val foreldra, hvernig kemur foreldri að því að velja barni sínu skóla, hvernig kemur foreldri að því að velja og skipuleggja nám fyrir barnið sitt með skólanum ef einhverjar sérþarfir eru fyrir barnið? Mér finnst að við þurfum að ræða þessi mál jafnt og önnur mál þegar kemur að skólamálum, vegna þess að skólinn er jú fyrir nemendur (Forseti hringir.) og enga aðra.