143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu brýna umfjöllunarefni og lýsi mig sammála mörgu því sem fram kom hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og sömuleiðis hjá öðrum ágætum skólamanni í okkar hópi, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni.

Það er auðvitað mikil gæfa fyrir Ísland að við höfum náð lengra í þessu efni en flestar aðrar þjóðir hvað varðar blöndun í skóla, skóla án aðgreiningar. Að sumu leyti er trúlega gæfa okkar að við erum fámennt samfélag og þess vegna takmarkaðir möguleikar til að koma upp þeim sérskólum sem auðveldara var að koma upp í stærri löndum þegar viðhorf voru með öðrum hætti.

Það er mikilvægt að börn eigi rétt á því að sækja nám í sínum heimaskóla, hverfisskóla sínum, ekki bara vegna jafnra tækifæra til náms, af því að námsárangur verður auðvitað alltaf mismunandi, heldur líka til að vera hluti af hverfinu sínu og eignast vini og kunningja í hverfinu sínu en verða ekki út undan í því samfélagi öllu með því að vera sendur eitthvað í sérdeild eða sérskóla.

Hins vegar verða auðvitað að vera valkostir í þessu kerfi fyrir þá sem það hentar ekki fyrir, og foreldrar verða, ekki sjálfkrafa og ekki einir heldur í samráði við skólayfirvöld, að eiga annarra kosta völ. Hér verðum við þó alltaf að muna — ég að minnsta kosti hef í störfum mínum stundum fundið til þess að jafnvel þeir sem vilja vel og nánir aðstandendur geta auðvitað vanmetið möguleika hins fatlaða til þess að bjarga sér og þess vegna getur þetta ekki verið einhliða ákvörðun. Það hlýtur alltaf að þurfa að vera samstarfsverkefni skólanna og heimilanna með hvaða hætti hver og einn einstaklingur fær blómstrað best.