143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland er aðili að er í 24. gr. fjallað um menntun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og ævinámi í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri.“

Tilgangurinn með þessari grein er meðal annars að auka virðingu fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og fjölbreytileika mannlífs, að veita fötluðu fólki tækifæri til að fullþroska persónuleika sinn, sköpunargáfu og hæfileika, ásamt því að gera fötluðu fólki kleift að taka þátt í frjálsu samfélagi.

Í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna er jafnframt áréttað að einstaklingum sé veitt viðeigandi aðlögun, að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins og að árangursríkar einstaklingsmiðaðar stuðningsaðgerðir séu veittar.

Mér fyndist því nær að ræða áherslumál foreldra í tengslum við það hvernig við getum bætt skóla án aðgreiningar í tengslum við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gerst aðili að. Við megum ekki gleyma því að ákvæði þessara alþjóðlegu sáttmála hafa ekki orðið til út í bláinn heldur eru þau niðurstaða mikillar og víðtækrar umræðu fjölda aðila, ekki hvað síst hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Niðurstaða þeirrar umræðu var að skóli án aðgreiningar (Forseti hringir.) sé gríðarlegt hagsmunamál fyrir fatlað fólk.