143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:49]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég tek undir það að skóli án aðgreiningar sem hluti af menntakerfinu er mannréttindamál. Það er mannréttindamál að allir hafi rétt á menntun og allir fái stuðning til að geta notið menntunar.

Ég vil ræða þetta í samhengi við hugtakið um einstaklingsmiðað nám. Þetta er mjög samhangandi hugsun. Hinn venjulegi nemandi í mínum huga er mjög óljóst hugtak, ekki síður en nemandi með sérþarfir. Margar greiningar sýna til dæmis að drengjum gengur verr í námi hér og reyndar er sama sagan víða um Vesturlönd, drengir eiga erfitt uppdráttar. Þeir sem tala ekki íslensku sem fyrsta tungumál eiga erfitt uppdráttar og síðan eru auðvitað þeir sem eru fatlaðir eða eiga við einhverjar skerðingar að stríða. Þar höfum við byggt upp skóla án aðgreiningar og gott stuðningskerfi.

Það var góður punktur sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom með áðan, okkur hefur að mörgu leyti gengið betur en öðrum þjóðum. Hærra hlutfall nemenda stundar heimaskóla sína hér og við höfum byggt upp heilmikið kerfi, heilmikla þekkingu og að mörgu leyti ágætisstuðningskerfi þar sem skipst er á aðferðum og þekkingu milli skóla og milli svæða. Við megum þó örugglega gera betur.

Ég held ekki endilega að kerfið okkar sé ónýtt, að skólarnir séu bilaðir og við þurfum að byrja upp á nýtt, heldur þvert á móti sé þarna margt gott sem við þurfum að byggja undir og gera enn betur.