143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem ég tel hafa verið málefnalega og gagnlega. Það er augljóst að það er ágætur samhljómur á Alþingi, og reyndar held ég í þjóðfélaginu öllu, um meginatriðin sem liggja að baki þessari hugmyndafræði sem hér er verið að ræða, þ.e. skóla án aðgreiningar. Það sem gæti verið einhver meiningarmunur um er hver réttur foreldra á að vera í einstaka tilvikum um val á milli sérskóla eða almenns skóla. Um það geta verið deildar meiningar.

Ég hallast frekar að því að réttur foreldra sé mjög ríkur, þeir þekkja best til barna sinna og því ber að hlusta mjög gaumgæfilega eftir afstöðu þeirra. Að sjálfsögðu þarf að taka með í reikninginn afstöðu sérfræðinga og skólamanna en mér þykir liggja beinast við að mestur þunginn hljóti að vera á afstöðu foreldranna.

Ég ítreka að nú stendur yfir úttekt á þessari stefnu, hvernig okkur hefur tekist til með framkvæmdina, hvar veikleikar eru og líka styrkleikar. Okkur hefur tekist vel til. Ég ítreka það og bendi á að þegar skoðaðar eru rannsóknir, samræmd próf, PISA-próf og önnur gögn sem við höfum um hvernig krökkunum okkar gengur í skólakerfinu er ýmislegt sem bendir til þess að hópurinn þjappist um miðjuna. Spurningin verður síðan þessi: Erum við að sinna nægilega vel þeim nemendum sem skara fram úr annars vegar og hins vegar þeim nemendum sem þurfa á meiri aðstoð að halda? Það er eitt af því sem þarf að leiða fram.

Það er líka rétt að hafa það í huga, af því að hér hefur verið rætt um möguleika og aðstæður í grunnskólunum, að fjármunir til grunnskólastigsins hafa vaxið mjög á undanförnum árum. Í öllum alþjóðlegum samanburði, þegar skoðaður er fjöldi (Forseti hringir.) nemenda á hvern kennara eða fjöldi aðstoðarfólks og sérfræðinga á hvern nemanda, sjáum við að Ísland stendur sig mjög vel.