143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

atvinnumál.

387. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það vakti athygli mína á dögunum þegar ég var að leita mér gagna og lenti inn á heimasíðu Stjórnarráðsins og fór að skoða lista yfir ráðherranefndir og starfshópa sem þar er að finna, að engin af ráðherranefndum eða ráðgjafarnefndum hæstv. ríkisstjórnar fjallar um atvinnumál. Á síðasta kjörtímabili var ráðherranefnd um atvinnumál ein allra virkasta ráðherranefndin eðli málsins samkvæmt og mikil verkefni lögð í hennar hendur. Hún hafði veg og vanda af því að undirbúa fjárfestingaráætlun, hún var samstarfstæki ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins um margar mikilvægar vinnumarkaðsaðgerðir og úrræði, svo sem eins og að greiða götu ungs fólk inn í skólana á þeim erfiðu tímum sem við vorum að ganga í gegnum. Ég hygg að ráðherranefnd um atvinnumál hafi væntanlega slagað upp í ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál hvað varðar tíðni funda.

Þessu er öðruvísi hagað hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn. Ég vil gjarnan gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að útskýra fyrir okkur af hverju hæstv. ríkisstjórn — hafandi þó skipað a.m.k. sex ráðherranefndir og allt í besta lagi með það, þ.e. ráðherranefnd um efnahagsmál, ráðherranefnd um jafnréttismál, ráðherranefnd um lýðheilsumál, ráðherranefnd um málefni norðurslóða, ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimila. Þar til viðbótar starfa einar tvær sérstakar ráðgjafarnefndir, það eru ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur og ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, fyrir utan auðvitað alls konar starfshópa og samhæfingarhópa, nefndir o.s.frv.

Á þessum alllanga lista sem ég prentaði út áðan, af öllum þessum stofnunum, nefndum, hópum og ráðum hjá hæstv. ríkisstjórn og í forsætisráðuneytinu, er engin nefnd sem fjallar um atvinnumál. Að vísu er minnst á samráðsvettvang um aukna hagsæld, en að öðru leyti koma þær ekki þarna við sögu.

Þetta vekur nokkra undrun mína. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hverju það ráðslag sæti að þrátt fyrir fjölda ráðherranefnda, ráðgjafarnefnda og starfshópa á vegum hæstv. ríkisstjórnar virðist enginn sérstakur vettvangur hafa verið myndaður um atvinnumál.

Þá í leiðinni vil ég gjarnan inna hæstv. forsætisráðherra, svona fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og væntanlega sem verkstjóra hennar, eftir því hvað líði vinnu við mótun heildstæðrar atvinnustefnu, sem lögð var talsverð vinna í á síðari hluta síðasta kjörtímabils með mikilli þátttöku samtaka, stofnana og í (Forseti hringir.) mjög víðtæku grasrótarsamstarfi og meiningin var að ætti að geta litið dagsins ljós undir lok ársins 2013 eða á fyrstu mánuðum þessa árs. Hvar er sú vinna á vegi stödd?