143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

atvinnumál.

387. mál
[16:59]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir tækifæri til að gera stuttlega grein fyrir vinnu ríkisstjórnarinnar að atvinnumálum.

Uppbygging atvinnulífs er eitt af meginverkefnum nýrrar ríkisstjórnar. Atvinnumál eru því áhersluatriði í nánast öllu starfi hennar. Ég skal nefna nokkur dæmi.

Atvinnumál eru efnahagsmál og koma sem slík reglulega til umfjöllunar í ráðherranefnd um efnahagsmál. Ríkisfjármál verða ekki krufin til mergjar nema atvinnumál liggi til grundvallar og sem slík koma þau reglulega til umfjöllunar í ráðherranefnd um ríkisfjármál. Atvinnumál til framtíðar litið er stór hluti norðurslóðamálefna sem nú eru mjög til umræðu og koma sem slík til umfjöllunar í ráðherranefnd um málefni norðurslóða. Þá er starfandi í landinu sérstakt ráðuneyti atvinnumála, eins og fyrirspyrjanda ætti að vera vel kunnugt, þar sem fjallað er um atvinnumál og þau rædd, bæði á breiðum grunni og afmörkuðum sviðum og tveir ráðherrar sem þar starfa bera atvinnumálin reglulega upp í ríkisstjórn eins og vera ber. Og áfram mætti telja.

Eitt meginhlutverk Vísinda- og tækniráðs er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og ég hef beitt mér fyrir eflingu þess starfs meðal annars með myndun formlegs samstarfshóps þeirra aðila sem að ráðinu koma til að stuðla að markvissari undirbúningi funda ráðsins og til að framfylgja betur en verið hefur þeirri stefnu sem ráðið mótar. Þá eru atvinnumál þungamiðjan í starfi samráðsvettvangs um aukna hagsæld þar sem fulltrúar fjölmargra aðila koma saman, m.a. aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar viðskiptalífsins, þar fyrir utan er fjöldi óformlegra hópa starfandi á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem unnið er að endurskoðun löggjafar og verklags er snerta atvinnumál. Það ráðuneyti á í reglulegum samskiptum við hagsmunaaðila í atvinnulífinu hvað varðar starfsumhverfi og stefnumótun á ýmsum sviðum.

Almennt telur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mikilvægt að nýta þá samstarfsvettvanga sem fyrir hendi eru, svo sem Vísinda- og tækniráð, hátækni- og sprotavettvang í samstarfi við Samtök iðnaðarins, samráðsvettvang um aukna hagsæld, auk þeirra fjölda hópa, samtaka og samráðsvettvanga sem starfandi eru til eflingar atvinnulífi. Ráðuneytið leggur ríka áherslu á uppbyggilegt samtal þvert á atvinnugreinar. Það er ekki markmið ríkisstjórnarinnar í sjálfu sér að setja á fót fjölda nefnda og starfshópa þó að það kunni að vera nauðsynlegt til að vinna að umfangsmiklum og flóknum verkefnum.

Það má þó nefna nokkra starfshópa á sviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Starfshópur um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar, sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði þann 15. febrúar síðastliðinn, hafði það hlutverk að koma með tillögur um hvernig við best nýttum þau tækifæri sem internetið gefur okkur til efnahagslegra og samfélagslegra framfara, þar með talið að sjálfsögðu atvinnusköpunar. Hópurinn hefur skilað tillögunum og greinargerð til ráðherra. Samstarfshópur um einföldun regluverks í ferðaþjónustu var settur á laggirnar undir forustu Ferðamálastofu. Markmið hópsins er að einfalda regluverk í kringum ferðaþjónustu.

Þá leggur óformlegur samstarfshópur um mótun klasastefnu drög að landsáætlun á sviði klasa sem tilbúin verður með haustinu. Í samstarfinu taka þátt ráðuneyti, stofnanir og níu klasar víða um land. Fleira mætti vissulega nefna, en framangreint ætti að duga til að upplýsa að vettvangur umræðu um atvinnumál í íslenska stjórnkerfinu er fjölbreyttur en ekki enginn, eins og fyrirspyrjandi virðist telja.

Vinna við mótun nýsköpunar og atvinnustefnu er í fullum gangi. Frumdrög stefnunnar hafa verið kynnt fyrir helstu samstarfs- og hagsmunaaðilum og kallað hefur verið eftir umsögnum áður en til opinnar kynningar kemur. Ráðuneytið vinnur nú að endurbættum drögum stefnunnar þar sem tillit er tekið til þeirra ábendinga sem borist hafa. Fyrirhugað er að kynna drög til opinnar umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins á næstu vikum. Þar gefst bæði þátttakendum í stefnumótunarferlinu og almenningi tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en endanleg útgáfa stefnunnar verður kynnt. Það verður því ekki annað sagt en að hjá ríkisstjórninni sé mikil áhersla á eflingu atvinnulífs og atvinnumálin yfirleitt. Sú mikla áhersla virðist nú þegar vera farin að skila árangri, frá því ríkisstjórnin tók við hafa nettó orðið til um 4 þús. ný störf.