143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

atvinnumál.

387. mál
[17:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra nefndi hóp sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar- og atvinnuþróunar. Okkur var falið það verkefni og við skiluðum tillögum hópsins af okkur 15. mars. Hópurinn átti að gera tillögur til ráðherra um úrbætur á þessu sviði og tillögurnar og greinargerðin verða birt opinberlega á vef ráðuneytisins á morgun. Þetta var virkilega gott og skemmtilegt starf. Þarna komu aðilar sem þurftu að koma að borðinu til þess að boltinn færi að rúlla. Það er fullt af góðum tillögum og við völdum þær með því tilliti að þetta væri atriði sem væri hægt að taka ákvörðun um á lágu stjórnsýslustigi og fara strax í það svo að boltinn færi að rúlla.

Í kjölfarið mun ég leggja fram þingsályktunartillögu í dag um að skipaður skuli starfshópur til lengri tíma sem tekur við boltanum frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra og vinnur vinnuna áfram, (Forseti hringir.) eins og skýrslu McKinsey og Boston Consulting Group. Það þarf að vinna vinnuna samfellt, það þarf alltaf að vera að uppfæra lögin (Forseti hringir.) til þess að skapa kjörlendi fyrir hagnýtingu internetsins og vernd notenda.