143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

einkavæðing ríkiseigna.

448. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að varpa fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um einkavæðingu ríkiseigna. Ástæða hennar er sú að um einkavæðingu ríkiseigna er ekki getið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þar er vissulega rætt um mikilvægi þess að styrkja atvinnulíf, til að mynda með því að einfalda regluverk og annað slíkt, auka skilvirkni. Það er talað um öflugt starfsumhverfi og fleira, en þegar kemur t.d. að þeim þáttum sem byggja upp innviði samfélagsins, ef við getum sagt sem svo, velferðarmálin og mennta- og menningarmálin, er ekki rætt neitt sérstaklega um einkarekstur eða einkavæðingu heldur um nauðsyn þess að fara í endurbætur á húsakosti Landspítalans, efla heilsugæsluna, talað um áherslu á ýmiss konar námsgreinar og margt þar ágætt.

Þess vegna fannst mér áhugavert þegar hæstv. fjármálaráðherra og formaður hins stjórnarflokksins kom upp í svar við fyrirspurn minni á dögunum þar sem ég innti hann eftir afstöðu hans til einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu, raunar vegna greinar sem Ragnar Árnason prófessor skrifaði um skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga og vakti á þeim athygli. Hæstv. fjármálaráðherra tók ekki undir þau sjónarmið sem birtust í greininni en sagði hins vegar, sem mér fannst athyglisvert, að hann væri sérstakur áhugamaður um aukinn hlut einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu, hann væri mikill áhugamaður um að ráðum yrði beitt til þess í raun að efla hlut einkaaðila í heilbrigðisþjónustu. Ég sé hæstv. menntamálaráðherra kinka kolli á ráðherrabekknum en ekki hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra er leiðtogi ríkisstjórnarinnar og því skiptir mjög miklu máli að fá að heyra afstöðu hans. Við þekkjum auðvitað öll sögu Framsóknarflokksins sem stundum hefur verið á bremsunni í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að einkavæðingu. Við erum líka með margar reynslusögur þar sem sporin hræða. Það var verið að rifja upp á dögunum einkavæðingu Símans þar sem margt kom í ljós eftir á, til að mynda að aldrei hefði þurft að selja grunnnetið, a.m.k. var hægur vandi að selja það út úr hinum einkavædda Síma þegar búið var að því og andvirðið sem átti að nýtast nánast til að gera allt fyrir alla skilaði sér ekki heldur að fullu leyti.

Mig langar því að spyrja hver stefna hæstv. forsætisráðherra er, annars vegar hvort komi til greina að selja einhver fyrirtæki, einhverjar eignir, eitthvað slíkt, og hins vegar hvort búið sé að setja niður einhverja stefnu, hvort hæstv. forsætisráðherra telji það koma til greina. Ég orðaði spurninguna opið til að hæstv. forsætisráðherra gæti skýrt sýn sína fyrir okkur, að einkavæða starfsemi með því að fela einkaaðilum að annast hana á grundvelli samninga, (Forseti hringir.) og hvað hann sæi fyrir sér í þeim efnum.