143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

einkavæðing ríkiseigna.

448. mál
[17:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. núverandi forsætisráðherra að fyrri ríkisstjórn hafi verið með gríðarlega umfangsmikil einkavæðingaráform á sínum prjónum. Það er fjarri öllu lagi. Þvert á móti gáfum við til dæmis um það alveg skýra yfirlýsingu eiginlega strax í upphafi kjörtímabilsins að ekki yrði hróflað við eignarhlut hins opinbera í orkufyrirtækjunum og við einkavæddum og seldum ekki eitt einasta fyrirtæki, þótt ýmsir væru með hugmyndir um slíkt sem lið í því að koma okkur út úr kreppunni að sækja einhverja fjármuni til slíkra hluta.

Við hins vegar undirbjuggum það vel, m.a. með því að setja um það lög, að kæmi til þess að ríki losaði um eitthvað af hlutum sínum í fjármálafyrirtækjum yrði það sómasamlega gert en það yrði ekki einkavæðing à la helmingaskiptin í byrjun aldarinnar. Sá er munurinn að nú liggur fyrir skýr lagarammi um það hvernig sé sómasamlega staðið (Forseti hringir.) að því ef og þegar til þess kemur, og auðvitað er ekkert ólíklegt að ríkið losi um eitthvað af eignarhlutum í þeim fjármálastofnunum sem nauðsynlegt var að setja peninga inn í, svo sem eins og einstaka (Forseti hringir.) sparisjóði eða minni hlutana í Arion og Íslandsbanka.