143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

einkavæðing ríkiseigna.

448. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega spennt að vita hvenær hæstv. forsætisráðherra hættir að vera jafn upptekinn af síðustu ríkisstjórn og hann virðist vera og fer að hafa meiri skoðanir á sinni eigin ríkisstjórn og því hvert hún stefnir. (Gripið fram í.)Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hver væri hans sýn, hver væri hans afstaða til einkavæðingar ríkiseigna og einkarekstrar, en hæstv. forsætisráðherra kom hér upp og taldi upp afrekaskrá fyrri ríkisstjórna. Nú verður hæstv. forsætisráðherra að fara úr stjórnarandstöðu og fara í ríkisstjórn og segja okkur á þingi hver hans afstaða sé til sölu ríkiseigna. Það þarf ekki að horfa á að hann fór yfir sölu eignarhluta í bönkum sem var mjög ítarlega rædd á þingi, en það eru auðvitað aðrar hugmyndir sem hafa verið uppi. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi Landsvirkjun. Það eru ýmsir, til að mynda hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hafa talað mjög með þeim hugmyndum þótt ég telji þær reyndar efnahagslega alveg feikilega óskynsamlegar, enda er það vonandi og lítur út fyrir að geta orðið gríðarlega mikilvægt fyrirtæki fyrir íslenska ríkið til framtíðar, svo dæmi sé tekið. Ég get nefnt Íslandspóst. Þar er fyrirhugað að afnema einkaleyfi á póstdreifingu. Hvað á að gera við Íslandspóst?

Væri hæstv. forsætisráðherra ekki reiðubúinn til þess að svara mér hver hans pólitíska afstaða er sem formaður Framsóknarflokksins og pólitískur leiðtogi ríkisstjórnarinnar? Finnst honum góð hugmynd að einkavæða þessi fyrirtæki eða ætlar hann bara að hafa það opið? Það er ekki talað um það í stefnuyfirlýsingunni. Getum við treyst því að vegna þess að það var ekki rætt um þetta í stefnuyfirlýsingunni sé það ekki á dagskrá, að það sé pólitísk afstaða hæstv. forsætisráðherra, ólík hæstv. fjármálaráðherra, að rétt sé að eiga þau fyrirtæki sem eru núna í sameign okkar og jafnvel að skila okkur arði? Ég nefndi þau áðan, t.d. Landsvirkjun og Íslandspóst sem hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um þetta?