143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

stuðningur við listdansnám.

399. mál
[17:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þó að þessi fyrirspurn láti lítið yfir sér fór hann ágætlega yfir það hversu flókið málið er. Ég vil taka fram að þótt ég hafi gert það að umtalsefni að kannski sé staðan að einhverju leyti sprottin vegna einkavæðingar á sínum tíma í Listdansskóla Íslands, þá er það samt miklu lengri saga því að hér hafa auðvitað verið sjálfstæðir listdansskólar og eins og ég sagði hafa þeir ekki aðeins fyrst og fremst verið með kvenkyns nemendur heldur hafa þeir líka verið reknir af konum sem hafa verið miklir frumkvöðlar og í raun rekið skólastarf sitt lengst af án stuðnings frá ríkinu. Þess vegna segi ég að alveg óháð rekstrarformi á þessum skólum er mjög mikilvægt að um þá verði settur einhver rammi og þeir njóti stuðnings sem við getum verið stolt af.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir það áðan hvernig öflugt tónlistarnám á Íslandi hefur skilað bæði gríðarlegu auðmagni í menningarlíf okkar, menningarlegu auðmagni, og gegnt mjög mikilvægu hlutverki fyrir ímynd Íslands, ferðamennsku, útflutning á tónlist o.s.frv. Þetta hangir allt saman.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í síðari fyrirspurn. Hann ræddi möguleika á að jafnvel yrði sett einhvers konar heildarlöggjöf um listdanskennslu. Telur hann það líklega leið eða telur hann líklegri leið, hann fór yfir að gera þyrfti úttekt á námskrá og annað slíkt, að farið verði í sérstaka löggjöf um listdanskennslu? Stendur annaðhvort til? Er fyrirhuguð einhver vinna við slíka löggjöf? Er fyrirhugað að kalla þessa aðila, og ég vitna þá til listdansskólanna, til samráðs á næstunni svo við áttum okkur á tímafletinum í þessu? Er fyrirhugað, og ég segi það þá um leið, að kalla sveitarfélögin (Forseti hringir.) til þess samráðs til að þau taki eðlilegan þátt í þessu námi eins og öðru?