143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af málum tengdum Evrópusambandinu.

419. mál
[17:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að Ríkisútvarpinu er reyndar nokkur vorkunn í því að finna íslenska stjórnmálamenn sem mæla Evrópusambandinu sérstaklega bót og mæla með því. Menn eru til dæmis að mæla með aðildarviðræðum en það eru mjög fáir þingmenn og stjórnmálamenn, eins og hv. fyrirspyrjandi, sem eru tilbúnir til þess að mæla með ESB og inngöngu landsins þangað. Margir eru tilbúnir til að ræða um viðræður og annað slíkt, það kann einmitt að birtast í þessum gögnum.

Rétt er að benda þó á eitt sem er áhugavert, virðulegi forseti, að þegar þessar greiningarniðurstöður eru skoðaðar eftir álitsgjöfum blasir sú mynd við sem hv. þingmaður benti á. En þegar litið er til greiningarniðurstöðu þar sem enginn viðmælandi er, þar sem útvarpið sjálft er að velta vöngum yfir eða flytja fréttir, þá breytist hlutfallið mjög áberandi. Þá eru jákvæðar fréttir 17,6%, hvorki/né fréttir 75,9%, neikvæðar fréttir 6,5%. Þetta er í nokkru ósamræmi við þá niðurstöðu sem birtist þegar horft er til viðmælendanna.

Hitt vil ég líka taka alveg sérstaklega fram og er nauðsynlegt að hafa í huga, að það er ekki svo að Ríkisútvarpið sé hafið yfir gagnrýni, hvorki frá stjórnmálamönnum né öðrum. Það er eðli opins lýðræðislegs samfélags að stjórnmálamenn og aðrir hafi skoðun á fréttaflutningi, efnistökum fréttastofa o.s.frv., á það bæði við um ríkið og reyndar líka einkarekna fjölmiðla, en alveg sérstaklega um ríkisrekna fjölmiðla. Þar er krafan um hlutleysi mjög rík og því eðlilegt að slík umræða sé uppi og engin ástæða fyrir Ríkisútvarpið sem stofnun að kveinka sér undan því.

Það sem ég var að vekja athygli á, virðulegi forseti, í ræðu minni var það að áhugavert er að skoða þessa umfjöllun og niðurstöður eftir tímabilum. Ef það hefur eitthvað misskilist eða hv. þingmenn hafi átt erfitt með að skilja það, þá var ég að horfa (Forseti hringir.) á tímabilið frá febrúar 2013 og fram að og yfir kosningar 2013 og skoða umfjöllunina á þeim tíma.