143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

421. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmanni hans innlegg. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að starfshópurinn hefði ekki lokið vinnu sinni og að nákvæm kostnaðarúttekt kostaði 4 milljónir. Það lá ekki fyrir í upphafi. Ég spyr þá: Sér hæstv. ráðherra einhverja leið til að ljúka því máli og hvenær þá?

Síðan hjó ég líka eftir því að hann sagði að ekkert lægi fyrir um að Stjórnarráðið gæfi frá sér Sölvhólsgötureitinn. Það er stefnubreyting því að sá starfshópur sem hér um ræðir var stofnaður með ríkisstjórnarsamþykkt á sínum tíma. Að honum koma, eins og ég sagði áðan, ríki, Reykjavíkurborg og Listaháskólinn sjálfur. Fyrir lá að þessi staðsetning yrði þar undir, þ.e. að Sölvhólsgötureiturinn yrði skoðaður. Þar af leiðandi lá væntanlega fyrir ákveðin stefna, hún hefði ekki verið skoðuð nema menn væru reiðubúnir að horfa þar á uppbyggingu listaháskóla. Er orðin einhver stefnubreyting þar á og er hæstv. ráðherra kunnugt um að margir hafi talið að þarna væri jafnvel rými fyrir báða aðila, þ.e. nýbyggingu af hálfu Stjórnarráðsins og Listaháskólans? Hvernig telur hann þá að sú framkvæmd gengi? Yrði það ekki skapandi Stjórnarráð sem kæmi út úr því? Mig langar aðeins að átta mig á því.

Hæstv. ráðherra fór hér yfir að hann hefði mikinn hug á að ljúka þessari vinnu. Hver er afstaða hæstv. ráðherra til staðsetningar? Hefur hann skoðun á henni? Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi að líklega væri hagkvæmara að horfa til þess húsnæðis sem fyrir er í Laugarnesinu en menn hafa hins vegar verið með efasemdir um það húsnæði, talið það óhentugt, enda byggt sem sláturhús, og að það gæti jafnvel orðið dýrari framkvæmdin á endanum. Væntanlega er það ástæðan fyrir þessari nákvæmu kostnaðarúttekt sem hæstv. ráðherra nefndi hér. Hefur ráðherra einhverja persónulega skoðun á því hvað hann sér fyrir sér um framtíð þessa skóla?