143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.

367. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil, auk þess að geta þess sem ég hef áður fjallað um í þessari fyrirspurn, þakka ráðherra og þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni og ráðherra fyrir svörin og segja að fljótlega eftir að þessar tilkynningar bárust kom vegamálastjóri og einn fulltrúi með honum á fund þingmanna Norðausturkjördæmis þar sem farið var ákaflega vel yfir þetta mál. Við fengum meðal annars upplýsingar um að Vegagerðin væri að færa til tæki og að um leið og veðrinu slotaði og það færi að skána yrði farið í að ýta út þeim miklu ruðningum sem há snjómokstrinum hvað mest.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það svar að engin áform séu um frekari niðurskurð á snjómokstri og um aukningu að ræða ef eitthvað er á næsta ári, og því ber að fagna, um 500 milljónir eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Það veitir sannarlega ekki af því og sá sem hér stendur þekkir að þetta hefur verið sífelld og mikil barátta. Við skulum hafa það í huga að á þeim vegum þar sem snjóalög eru kannski ekki eins mikil og á vegum sem við erum að tala um víða úti á landi er vegna breyttra veðurhátta mikil hálka og hálkuvörn og annað slíkt hefur aukist mikið. Ég held að það verði að viðurkennast, og viðurkennast af öllum, að fjárveiting til vetrarþjónustu hefur ekki aukist í takt við umferð og breytt veðurfar.

Ég vil í lokin spyrja hæstv. ráðherra hvort þær 500 millj. kr. sem á að setja í vetrarþjónustuna á næsta ári, miðað við samgönguáætlun sem er nýbúið að leggja fram, séu nýir peningar sem koma inn, eða er það þannig að það sé fært frá stofnframkvæmdum? Það má þá segja að það sé ekki nýtt ef framlag til stofnframkvæmda er jafn lítið og mér hefur sýnst (Forseti hringir.) það vera þetta ár, hvernig sem það verður á næsta ári, en það eigum við eftir að ræða um leið og samgönguáætlun.