143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum.

379. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Nýlega var greint frá því í fréttamiðlum að fólk sem hafði í hyggju að giftast í kirkju hér í bæ, nánar tiltekið í Háteigskirkju, hefði þurft frá að hverfa vegna þess að hjólastólaaðgengi fyrir svaramann tilvonandi brúðar var ekki tryggt. Beiðni parsins til prestsins og safnaðarins eða starfsmanna kirkjunnar um að útvega svokallaðan ramp til að leysa málið var ekki mætt.

Nú hlýtur fólki að bregða við því að í stefnumótun kirkjunnar í málefnum fatlaðs fólks frá árinu 2010 sem finna má á vef þjóðkirkjunnar kemur fram, með leyfi forseta, að markmiðið sé að „efla þjónustu kirkjunnar við fatlað fólk í samfélaginu, aðstandendur þess og þau sem starfa að málefnum fatlaðra“.

Eins segir um stefnuna:

„Íslenska þjóðkirkjan er kirkja allra þeirra sem henni vilja tilheyra. Þjóðkirkjan leggur til grundvallar kristinn mannskilning sem felur í sér virðingu fyrir ólíkum einstaklingum. Mikilvægt er að þjóðkirkjan hafi þann skilning að leiðarljósi í samskiptum sínum við söfnuðinn, leggi áherslu á að sérstaða einstaklinga sé virt og að kirkjan hafi svigrúm til að mæta fólki í samræmi við þarfir þess.“

Enn fremur segir, frú forseti:

„Þjóðkirkjan tryggi öllum þegnum landsins aðgengi að helgihaldi og öðrum þáttum kirkjustarfs með því að:

aðgengi hreyfihamlaðra að byggingum og vettvangi kirkjustarfs sé tryggt,

tæknileg hjálpartæki séu til staðar og vel nýtt,

kirkjan auki möguleika fatlaðs fólks á þátttöku í kirkjustarfi og nýti þannig styrkleika ólíkra einstaklinga til að efla samfélagið innan hennar.“

Þetta eru fögur orð og fögur fyrirheit en marklaus nema farið sé eftir þeim. Þetta nýlega tilvik sem ég vitnaði í hér að framan er því miður ekki einsdæmi. Við vitum því miður dæmi þess að fötluð börn hafi ekki fermst vegna lélegs aðgengis og áhugaleysis aðila innan kirkjunnar til að koma til móts við mismunandi þarfir þeirra. Í ljósi þessa og þess að íslenska ríkið leggur til drjúgan hluta rekstrarfjár kirkna landsins vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra:

Hefur verið gerð úttekt á aðgengi fatlaðs fólks að kirkjum og safnaðarheimilum á landinu og ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar úttektar og hvernig verður henni fylgt eftir?

Ef slík úttekt hefur ekki farið fram, má þá vænta þess að hún verði gerð?