143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil aftur, vegna þess að hv. þingmaður hefur áður nefnt þessi mál hér, nota tækifærið til að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að halda málinu lifandi á þingi sem hann hefur gert mjög ötullega. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekki gott hversu lengi verkið hefur tafist og að mörgu leyti algerlega óásættanlegt. Ég hefði viljað óska að það hefði gengið hraðar fyrir sig en það hefur gert.

Hins vegar er ekki einungis við þá sem hér stendur að sakast í því vegna þess að tekin var ákvörðun um það af hálfu framkvæmdaraðila og Vegagerðarinnar síðasta vor að fresta því að fara í útboð á þeim tíma. Talið var að það hafi verið, eins og kom fram í svari mínu þegar við ræddum þessi mál síðast ef ég man rétt í nóvember, vegna þess að það var mat framkvæmdaraðilanna að það væri komið of langt inn í þann tíma og að það þyrfti að auglýsa málið á Evrópska efnahagssvæðinu o.s.frv. og það væri of flókið. Nú ætla ég ekki að fara yfir það hver ástæðan var nákvæmlega fyrir því en þannig var lendingin á þeim tíma.

Við ræddum síðan þessi mál, eins og hv. þingmaður þekkir, ítarlega í nóvember síðastliðnum og vorum sammála um mikilvægi þess að tryggja það í komandi samgönguáætlun að haldið yrði áfram með verkið. Hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn höfðu þá eðlilega áhyggjur af því að sú frestun þýddi að verkið væri komið í einhverja biðstöðu. Ég sagði þá að ég mundi beita mér fyrir því að svo yrði ekki og treysti því að menn mundu ná saman um að haldið yrði áfram með þetta mikilvæga verk. Þannig er niðurstaðan sem betur fer, að ríkisstjórnin hefur nú að tillögu minni ákveðið að leggja fram þingsályktunartillögu um samgönguáætlun, sem þingmenn þekkja hér, árin 2014–2016. Þar kemur fram að 1. áfangi í seinni hluta Dettifossvegar, þ.e. norðurhlutinn, skuli unninn á árinu 2014. Það þýðir að um það bil 3,5 kílómetrar á Dettifossvegi næst norðausturvegi verður boðinn út á allra næstu vikum og miðað verði við að framkvæmdum á því svæði ljúki í haust. Í samgönguáætluninni er síðan miðað við að áfram verði unnið að framkvæmdum árin 2015 og 2016 og þeim ljúki þá.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég hefði svo gjarnan viljað að þetta verkefni hefði gengið fyrr fram. En miðað við það, eins og ég sagði í fyrri umr. þegar við ræddum vegaframkvæmdir og samgöngumál, að fjármagn til samgöngumála á þessu ári er ekki eins hátt og stefnt hafði verið að varð eitthvað undan að láta. Þess vegna er ég afar sátt við það og í raun og veru stolt af því að það skyldi hafa tekist að halda þessu verkefni inni. Það var ekki sjálfgefið en það hafðist og tókst þannig að verkinu verður áfram haldið. En það er alveg hárrétt að það verður ekki unnið eins hratt og til stóð og tekur eilítið lengri tíma. — Ég er aðeins að reyna að tala hærra en þeir sem eru að tala í salnum þannig að ég held því áfram, (Gripið fram í: Gerðu svo vel.) takk fyrir. Ég ítreka það og vonast til að verkið takist eins og gert er ráð fyrir árið 2016, en það er hárrétt eins og komið hefur fram að því hefur verið frestað og var gert síðasta sumar. Við þurfum að svara því í sameiningu hver ástæðan var nákvæmlega fyrir því, en það sem mestu skiptir er að verkinu verður fram haldið og útboð fer fram á næstu vikum. Ég vona innilega að fyrr en síðar takist að tryggja þessa mikilvægu samgöngubót fyrir þetta svæði og í raun og veru landið allt.