143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég kem hingað einfaldlega til að taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller og lýsa miklum vonbrigðum og mikilli óánægju með tillögu að nýrri samgönguáætlun. Ég tel að þessi framkvæmd fái herfilega útreið sem er ekki sanngjörn.

Það sem hefur gerst er mjög slæmt. Jafn sett verkefni í gildandi samgönguáætlun hafa ekki fengið sambærilega meðferð. Auðvitað gleðst maður yfir því þegar verkefni annars staðar eða hvar sem er eru boðin út en það er ekki sanngjarnt að með verk eins og þetta, sem búið er að bíða svo lengi eftir og komið var með framkvæmdafjárveitingar fyrir í gildandi samgönguáætlun fyrra árs og þessa árs, sé dregið og dregið að bjóða út á sama tíma og önnur jafn sett verk í samgönguáætlun fara af stað. Svo er mönnum refsað með því að þynna verkið út í fjögur ár. Það verður ekki fyrr en væntanlega seint á árinu 2017 sem þetta klárast miðað við (Forseti hringir.) þá smáaura sem á að mylgra í þetta á fjórum árum, verkefni sem hefði raunar átt að sjá fyrir endann á á næsta ári.

Ég lýsi mikilli (Forseti hringir.) óánægju með þetta.