143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna hvatningunni og tek hana mjög alvarlega. Ég tel reyndar, eins og ég sagði hér í byrjun máls míns, að ágætlega hafi til tekist þrátt fyrir að ég sé auðvitað alveg sammála því að farsælast hefði verið að málið hefði verið klárað og það fyrir nokkuð löngu síðan. Þess vegna get ég ekki tekið undir og finnst reyndar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon frekar ósanngjarn þegar hann leyfir sér að skella skuldinni á þessa ríkisstjórn. Ég minni þennan hv. þingmann á að ákvarðanir um þessa frestun voru teknar sl. vor. Annars hefði verið gengið frá útboði fyrr. Við komum að verkinu þannig að ekki var hægt að fara í útboðið vegna þess að það var ekki tilbúið. Ég ætla ekki að eyða orku eða orðum í það.

Ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði. Málið er okkur öllum til vansa. Það skrifast á reikning okkar allra. Það er svolítið ódýrt að henda boltanum núna á þann stað sem hv. þingmaður gerði í þessu máli vegna þess að ég er algerlega einlæg í því, og treysti því að hv. þingmenn séu það líka, að vilja klára verkefnið. Það er ekki rétt sem kom fram í máli hv. þingmanna að til stæði að ljúka framkvæmdum í lok árs 2017. Það stendur til að ljúka framkvæmdum í lok árs 2016. Vonandi tekst það fyrr. Ég stefni að því með öllum ráðum að tryggja það. (Gripið fram í: En eitt útboð?) Hér spyr hv. þingmaður hvort það eigi að fara í eitt útboð. Það hefur verið ákveðið miðað við fjármagnið, sem eins og ég sagði áðan er takmarkað á þessu ári, að fara í þennan áfanga núna. Svo skulum við reyna að vinna að verkefninu í sameiningu svo að okkur takist fyrr en síðar að ljúka því. Verkefnið er í forgangi, þingheimur getur treyst því.