143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er náttúrlega ámátleg staða sem við horfumst í augu við núna. Verið er að breyta dagskrá þingsins nánast fyrirvaralaust af einhverjum undarlegum ástæðum. Og hvaða mál var það sem átti að vera á dagskrá á morgun? Það var stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Það var málið sem ríkisstjórnarflokkarnir létu kjósa sig á þing fyrir. Það var málið sem báðir flokkarnir hafa verið iðandi í skinninu eftir að fá að færa fram til þjóðarinnar.

En nú er okkur tilkynnt, þrátt fyrir að búið hafi verið að ganga frá dagskránni á þingflokksformannafundum hér í morgun, og búið að halda þingflokksfundi þar sem búið er að skipta verkum með fólki — nei, klukkan 18 áttar fólk sig allt í einu á dagatalinu og þá kemur fram sú ósk að breyta dagskrá þingsins gjörsamlega.

Virðulegur forseti. Þetta er svo hlægilegt að ég held að það verði lengi í minnum haft.