143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku funduðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra með okkur formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og kynntu okkur hugmyndirnar um skuldaniðurfellingu. Þeir báðu um gott veður fyrir vegferð þeirra mála hér á þingi og vildu helst geta mælt fyrir þeim þá þegar á föstudaginn síðasta. Okkur þótti það ekki ganga því að við vildum fá að geta lesið málin. En við höfum greitt fyrir því að hægt verði að fara í gegnum þessi mál núna og koma þeim strax til nefndar, því að það skiptir máli að vinnsla þeirra geti hafist sem fyrst. Það er nákvæmlega það sem við erum að reyna að hjálpa ríkisstjórninni við, að koma þessum málum til nefndar.

Að það skuli vera ríkisstjórnin sjálf og forustumenn hennar sem afþakki það að koma þessum málum til nefndar vekur auðvitað upp hjá manni spurningar: Hvað liggur að baki? Er verið að reyna að búa til sumarþing? Er verið að reyna að tefla málum í tvísýnu? Er verið að reyna að eyðileggja meðferð mála hér í þinginu? Það eru engin skynsamleg rök fyrir þessu. Ég trúi því ekki að menn séu svo viðkvæmir fyrir því að hlegið verði að þeim fyrir það aprílgabb sem þessi frumvörp auðvitað eru, (Forseti hringir.) að þeir treysti sér ekki til þess að mæla fyrir þeim á morgun.