143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki oft sem ég hef á síðustu 23 árum í þessum sal orðið nálægt því kjaftstopp. [Hlátur í þingsal.] Það varð ég þó við þessi tíðindi. Ég minnist þess ekki að hafa upplifað neitt þessu líkt. Er það spéhræðsla hæstv. forsætisráðherra sem á að koma í veg fyrir að hægt sé að ræða það mál sem hann ber mest fyrir brjósti? Er það sú staðreynd að innihaldsleysi skuldalækkunartillagna Framsóknarflokksins gefur fullt tilefni til þess að kalla þær aprílgabb?

Herra forseti. Hér hefur stjórnarandstaðan lagt sig fram um að lýsa því yfir að hún muni ekki stöðva framgang þessara mála. Hún hefur t.d. samið um það að ósk stjórnarliða að frumvörpin verði rædd saman, hún hefur sagt algjörlega skýrt að hún muni stuðla að því að málin komist til nefndar sem fyrst til þess að fá málefnalega umfjöllun. En það er spéhræðsla hæstv. forsætisráðherra og hugsanlega annarra ráðherra sem kemur í veg fyrir að hægt sé að ræða mikilvægasta frumvarp sögunnar, ef marka má orð hæstv. forsætisráðherra.